Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess1)

1951 nr. 110 19. desember


    1)Rg. 284/1999 (um kaupskrárnefnd varnarsvæða). Rg. 902/2002 (um ráðstöfun afgangsvöru varnarliðsins).
Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 31. desember 1951.

1. gr.
Meðan í gildi er varnarsamningur sá milli Íslands og Bandaríkjanna, sem undirritaður var hinn 5. maí 1951, skulu ákvæði hans og viðbætis við hann frá 8. maí 1951, um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra, hafa lagagildi hér á landi. Samningurinn og viðbótarákvæðin eru prentuð sem fylgiskjöl með lögum þessum.

Fylgiskjal.
Varnarsamningur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins.
   Þar sem Íslendingar geta ekki sjálfir varið land sitt, en reynslan hefur sýnt, að varnarleysi lands stofnar öryggi þess sjálfs og friðsamra nágranna þess í voða, og þar sem tvísýnt er um alþjóðamál, hefur Norður-Atlantshafsbandalagið farið þess á leit við Ísland og Bandaríkin, að þau geri ráðstafanir til, að látin verði í té aðstaða á Íslandi til varnar landinu og þar með einnig til varnar svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, með sameiginlega viðleitni aðila Norður-Atlantshafssamningsins til að varðveita frið og öryggi á því svæði fyrir augum. Samningur sá, sem hér fer á eftir, hefur verið gerður samkvæmt þessum tilmælum.
1. gr.
Bandaríkin munu fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins og samkvæmt skuldbindingum þeim, sem þau hafa tekist á hendur með Norður-Atlantshafssamningnum, gera ráðstafanir til varnar Íslandi með þeim skilyrðum, sem greinir í samningi þessum. Í þessu skyni og með varnir á svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, fyrir augum, lætur Ísland í té þá aðstöðu í landinu, sem báðir aðilar eru ásáttir um, að sé nauðsynleg.
2. gr.
Ísland mun afla heimildar á landsvæðum og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að í té verði látin aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, og ber Bandaríkjunum eigi skylda til að greiða Íslandi, íslenskum þegnum eða öðrum mönnum gjald fyrir það.
3. gr.
Það skal vera háð samþykki Íslands, hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu, svo og með hverjum hætti það tekur við og hagnýtir þá aðstöðu á Íslandi, sem veitt er með samningi þessum.
4. gr.
Það skal háð samþykki íslensku ríkisstjórnarinnar, hversu margir menn hafa setu á Íslandi samkvæmt samningi þessum.
5. gr.
Bandaríkin skulu framkvæma skyldur sínar samkvæmt samningi þessum þannig, að stuðlað sé svo sem frekast má verða að öryggi íslensku þjóðarinnar, og skal ávallt haft í huga, hve fámennir Íslendingar eru, svo og það, að þeir hafa ekki öldum saman vanist vopnaburði. Ekkert ákvæði þessa samnings skal skýrt þannig, að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum.
6. gr.
Samningur sá, er gerður var hinn 7. október 1946 milli Íslands og Bandaríkjanna um bráðabirgðaafnot af Keflavíkurflugvelli, fellur úr gildi við gildistöku samnings þessa, og mun Ísland þá taka í sínar hendur stjórn og ábyrgð á almennri flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Ísland og Bandaríkin munu koma sér saman um viðeigandi ráðstafanir varðandi skipulag á rekstri flugvallarins til þess að samræma starfsemi þar því, að hann er jafnframt notaður í þágu varnar Íslands.
7. gr.
Hvor ríkisstjórnin getur, hvenær sem er, að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstjórnarinnar, farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu, og geri tillögur til beggja ríkisstjórnanna um það, hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Ef slík málaleitan um endurskoðun leiðir ekki til þess, að ríkisstjórnirnar verði ásáttar innan sex mánaða, frá því að málaleitunin var borin fram, getur hvor ríkisstjórnin, hvenær sem er eftir það, sagt samningnum upp, og skal hann þá falla úr gildi tólf mánuðum síðar. Hvenær sem atburðir þeir verða, sem 5. og 6. gr. Norður-Atlantshafssamningsins tekur til, skal aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, látin í té á sama hátt. Meðan aðstaðan er eigi notuð til hernaðarþarfa, mun Ísland annað hvort sjálft sjá um nauðsynlegt viðhald á mannvirkjum og útbúnaði eða heimila Bandaríkjunum að annast það.
8. gr.
Samningur þessi er gerður á íslensku, og á ensku, og eru báðir textar jafngildir. Hann gengur í gildi, er hann hefur verið undirritaður af réttum yfirvöldum Íslands og Bandaríkjanna og ríkisstjórn Íslands hefur afhent ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku tilkynningu um, að samningurinn hafi verið fullgiltur af Íslands hálfu.

Fylgiskjal.
Viðbætir um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra.
1. gr.
Í viðbæti þessum taka orðin „lið Bandaríkjanna“ yfir liðsmenn í herliði Bandaríkjanna og starfslið, sem herliðinu fylgir og er í þjónustu þess, enda hafi menn þessir hvorki ríkisfang né fasta búsetu á Íslandi, heldur dveljist þar vegna framkvæmda á samningi þessum.
2. gr.
1. a. Herdómstólar Bandaríkjanna skulu aldrei hafa lögsögu á Íslandi yfir íslenskum ríkisborgurum eða öðrum mönnum, sem ekki lúta herlögum Bandaríkjanna.
    b. Liði Bandaríkjanna og skylduliði liðsmanna á Íslandi ber að virða íslensk lög og hafast ekkert það að, sem fer í bága við anda þessa samnings, og einkum skulu þeir forðast að hafa nokkur afskipti af íslenskum stjórnmálum. Bandaríkin munu gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni.
2. Innan marka þessarar greinar:
    a. hafa hervöld Bandaríkjanna heimild til að fara með á Íslandi hvers konar lögsögu og eftirlit, sem lög Bandaríkjanna veita þeim, yfir þeim mönnum, sem lúta herlögum Bandaríkjanna;
    b. hafa íslensk stjórnvöld lögsögu yfir mönnum í liði Bandaríkjanna, að því er varðar brot, sem framin eru á Íslandi og refsiverð eru að íslenskum lögum.
3. a. Hervöld Bandaríkjanna skulu ein fara með lögsögu yfir mönnum, sem lúta herlögum Bandaríkjanna, að því er varðar brot gegn öryggi Bandaríkjanna, en ekki öryggi Íslands, svo og að því er varðar öll brot, sem refsiverð eru að lögum Bandaríkjanna, en ekki lögum Íslands.
    b. Íslensk stjórnvöld skulu ein fara með lögsögu yfir mönnum í liði Bandaríkjanna, að því er varðar brot gegn öryggi Íslands, en ekki öryggi Bandaríkjanna, svo og að því er varðar öll brot, sem refsiverð eru að lögum Íslands, en ekki lögum Bandaríkjanna.
    c. Til brota gegn öryggi Íslands eða Bandaríkjanna teljast:
    1. landráð;
    2. skemmdarverk, njósnir og brot á hvers konar lögum, er varða leyndarmál íslenska ríkisins eða Bandaríkjanna, eða leyndarmál, er varða varnir Íslands eða Bandaríkjanna.
4. Nú ber rétt til lögsögu undir bæði ríkin, og skulu þá eftirfarandi reglur gilda:
    a. Hervöld Bandaríkjanna skulu hafa forrétt til lögsögu yfir mönnum í liði Bandaríkjanna, að því er varðar:
    1. brot, er einungis beinast gegn eignum Bandaríkjanna eða gegn manni í liði Bandaríkjanna, skylduliði hans eða eignum þeirra;
    2. brot, sem drýgð eru í sambandi við framkvæmd starfsskyldu.
    b. Íslensk stjórnvöld hafa forrétt til lögsögu í öllum málum vegna annarra brota.
    c. Nú hyggst sá aðili, er forrétt til lögsögu hefur, hvort heldur er Ísland eða Bandaríkin, að fara ekki með hana, og skal þá sú niðurstaða tilkynnt hinum aðilanum, svo fljótt sem verða má. Sá aðili, er forrétt hefur, hvort heldur eru íslensk stjórnvöld eða stjórnvöld Bandaríkjanna, skal taka til vinsamlegrar athugunar beiðni hins aðilans um, að horfið sé frá lögsögu, þegar sá aðili telur það mjög miklu máli skipta.
5. Stjórnvöld Bandaríkjanna skulu eigi framkvæma dauðadóma á Íslandi.
6. a. Íslensk stjórnvöld og stjórnvöld Bandaríkjanna skulu veita hvor öðrum aðstoð við handtöku manna úr liði Bandaríkjanna eða skylduliði slíkra manna, sem drýgja brot á Íslandi, svo og við afhendingu þeirra til stjórnvalda þess aðila, sem fer með lögsögu samkvæmt framanskráðum ákvæðum.
    b. Íslensk stjórnvöld skulu tilkynna hervöldum Bandaríkjanna tafarlaust, er maður í liði Bandaríkjanna hefur verið handtekinn á Íslandi eða maður úr skylduliði hans.
    c. Nú er sökunautur, sem íslensk stjórnvöld hafa lögsögu yfir, í gæslu hjá stjórnvöldum Bandaríkjanna, og skal hann þá vera þar áfram, uns íslensk stjórnvöld hefja saksókn gegn honum.
7. a. Nú er maður í liði Bandaríkjanna sóttur til sakar um brot, og skulu þá þau íslensk og bandarísk stjórnvöld, er í hlut eiga, veita hvor öðrum aðstoð við nauðsynlega rannsókn á brotinu og saksókn gegn sökunaut.
    b. Nú fara Bandaríkin með lögsögu í máli, og skulu þá íslensk stjórnvöld gera nauðsynlegar ráðstafanir til, að tryggð sé návist og fengnar skýrslur íslenskra þegna og manna á Íslandi utan samningssvæðanna, annarra en manna úr liði Bandaríkjanna og skylduliði þeirra. Nú er nauðsynlegt samkvæmt lögum Bandaríkjanna, að bandarísk yfirvöld taki sjálf skýrslur af íslenskum þegnum, og munu þá íslensk stjórnvöld gera allar þær ráðstafanir, sem unnt er, til þess að slíkir þegnar komi til skýrslugjafar í viðurvist íslenskra yfirvalda á þeim stöðum, sem þau kveða á um.
   Nú ber brot undir lögsögu íslenskra stjórnvalda, og munu þá hervöldin með sama hætti annast öflun sönnunargagna hjá mönnum í liði Bandaríkjanna og skylduliði þeirra.
    c. Stjórnvöld Íslands og Bandaríkjanna skulu gefa hvor öðrum skýrslur um árangur hvers konar rannsóknar og saksóknar í málinu, þar sem lögsögu getur borið undir hvorn aðila sem er.
8. Nú hefur maður í liði Bandaríkjanna eða maður úr skylduliði hans verið sóttur til sakar af stjórnvöldum Bandaríkjanna og verið sýknaður eða verið sakfelldur og er að taka út refsingu eða hefur þegar tekið hana út, og skal þá íslenskum stjórnvöldum eigi heimilt að sækja hann til sakar fyrir það brot.
9. Þegar maður í liði Bandaríkjanna eða maður úr skylduliði hans er sóttur til sakar og íslensk stjórnvöld fara með lögsögu, á hann rétt á því:
    a. að rannsókn og saksókn sé hraðað;
    b. að fá vitneskju fyrir upphaf saksóknar um sakargiftir á hendur honum;
    c. að hann og vitni, sem bera gegn honum, séu samspurð;
    d. að vitnum, sem kunna að geta borið honum í hag og eru innan íslenskrar lögsögu, sé gert skylt að bera vætti;
    e. að hæfur málflutningsmaður sé skipaður verjandi hans, enda ráði hann vali hans, ef hann óskar þess;
    f. að hæfur dómtúlkur sé tilkvaddur, ef hann telur þess þörf; og
    g. að hafa samband við fulltrúa ríkisstjórnar sinnar og, ef dómreglur leyfa það, að sá fulltrúi sé viðstaddur réttarhöldin.
10. Liði Bandaríkjanna er rétt að fara með lögregluvald á samningssvæðunum og gera allar viðeigandi ráðstafanir til að halda þar uppi aga, allsherjarreglu og öryggi. Utan samningssvæðanna mega menn úr liði Bandaríkjanna hafa með höndum lögreglustörf, eftir því sem um semst við íslensk stjórnvöld, í samvinnu við þau og einungis að svo miklu leyti, sem það er nauðsynlegt til að halda uppi aga og reglu meðal manna úr liði Bandaríkjanna og manna úr skylduliði þeirra. Þegar menn úr liði Bandaríkjanna hafa slíka samvinnu við íslensk yfirvöld, fara þau ein með yfirráð yfir íslenskum þegnum og öðrum mönnum á Íslandi og eignum þeirra í öllum málum, er varða uppihald reglu og aga utan samningssvæðanna samkvæmt ofanskráðu. Þetta tekur þó eigi til manna úr liði Bandaríkjanna, manna úr skylduliði slíkra manna og þeirra starfsmanna verktaka Bandaríkjanna, sem ekki eru íslenskir þegnar.
3. gr.
1. Íslensk yfirvöld skulu gera eitt af tvennu:
    a. taka gild, án þess að ökupróf fari fram eða gjald sé greitt, venjuleg ökuskírteini eða hermannaökuskírteini, sem gefin eru út af Bandaríkjunum eða fylkjum þeirra, til handa mönnum í liði Bandaríkjanna eða mönnum í skylduliði þeirra, eða
    b. gefa út, án ökuprófs eða gjalds, íslensk ökuskírteini handa mönnum í liði Bandaríkjanna, eða mönnum í skylduliði þeirra, enda hafi þeir skírteini frá Bandaríkjunum eða fylkjum þeirra.
2. Yfirvöld Bandaríkjanna munu í samvinnu við íslensk yfirvöld gefa út rækilegar leiðbeiningar til manna í liði Bandaríkjanna og manna í skylduliði þeirra um íslenska umferðarlöggjöf og reglur og leggja fyrir þá að hlýða þeim í einu og öllu.
4. gr.
1. Hermenn í liði Bandaríkjanna skulu að jafnaði vera einkennisklæddir.
2. Ökutæki, sem notuð eru af liði Bandaríkjanna, skulu merkt skrásetningartölu og glöggu þjóðernisauðkenni.
3. Yfirvöld Bandaríkjanna munu afhenda íslenskum yfirvöldum skrá yfir öll ökutæki, skrásetningartölu þeirra og eigendur.
5. gr.
Liði Bandaríkjanna á Íslandi er heimilt að bera vopn á samningssvæðunum, svo sem þörf krefur, til framkvæmdar á skyldustörfum. Utan samningssvæðanna má liðið einungis bera vopn við framkvæmd skyldustarfa eða vegna hernaðarþarfa, nema rétt íslensk stjórnvöld samþykki annað.
6. gr.
1. Menn í liði Bandaríkjanna og skyldulið þeirra mega kaupa á Íslandi vörur til sjálfs sín neyslu og þá þjónustu, sem þeir þarfnast, með sömu kjörum og íslenskir þegnar.
2. Vörur, sem keyptar eru á Íslandi og lið Bandaríkjanna þarfnast sér til viðurværis, skulu að jafnaði keyptar fyrir atbeina þeirrar umsýslustofnunar íslenska ríkisins, sem af Íslands hálfu er til þess nefnd, til að koma í veg fyrir, að slík kaup hafi skaðleg áhrif á hagkerfi Íslands.
3. Þar til bær íslensk stjórnvöld munu, þegar þörf krefur, segja til, er kaup á tilteknum vörum, sem greindar eru í töluliðunum 1 og 2 að ofan, skulu takmörkuð eða bönnuð, og munu yfirvöld Bandaríkjanna taka fullt tillit til slíkrar málaleitunar.
4. Bandaríkin æskja þess að ráða hæfa íslenska borgara, eftir því sem föng eru á, til starfa í sambandi við samning þennan. Að svo miklu leyti sem Ísland kann að samþykkja ráðningu íslenskra borgara til starfa hjá liði Bandaríkjanna, skal slík starfsráðning framkvæmd með aðstoð og um hendur þess eða þeirra fyrirsvarsmanna, sem af Íslands hálfu eru til þess kvaddir. Ráðningarkjör og vinnuskilyrði, 1) einkum vinnulaun, launauppbætur og öryggisráðstafanir við vinnu, skulu fara að íslenskum lögum og venjum.
5. Ísland og Bandaríkin munu hafa samvinnu um að uppræta og koma í veg fyrir hvers konar ólöglega starfsemi, svo og afstýra athöfnum, sem óheppileg áhrif hafa á íslenskt hagkerfi.
    1)Rg. 284/1999.
7. gr.
1. Nú dvelst á Íslandi maður í liði Bandaríkjanna, maður í skylduliði slíks manns eða starfsmaður, sem ekki er íslenskur þegn, en ráðinn hefur verið til starfa vegna framkvæmda samkvæmt samningi þessum og er þar einungis vegna þess starfa, og skal þá slík dvöl um stundarsakir hvorki talin heimilisfang né búseta og skal ekki út af fyrir sig skapa honum skattskyldu á Íslandi, hvorki að því er varðar tekjur né eignir, sem hann aflar þar eða á þar vegna téðrar dvalar sinnar. Eigi skal heldur taka dánargjöld af búi slíks aðila.
2. Enginn Bandaríkjaþegn eða félag, stofnað samkvæmt lögum Bandaríkjanna, sem heimilisfang á í Bandaríkjunum, skal greiða tekjuskatt á Íslandi af tekjum, sem aflað er með samningi við Bandaríkin í sambandi við framkvæmdir samkvæmt samningi þessum.
3. Enga skatta, gjöld eða aðrar álögur skal leggja á efni, útbúnað, birgðir eða vörur, þ. á m. persónulega muni, búsmuni, bifreiðar í einkaeign og fatnað, sem flutt hefur verið til Íslands í sambandi við framkvæmdir samkvæmt samningi þessum. Engan slíkan skatt, gjöld eða álögur skal leggja á eignir, sem stjórnvöld Bandaríkjanna afla á Íslandi til afnota fyrir Bandaríkin, umsýsluaðila sína eða lið, sem dvelst á Íslandi einungis í sambandi við framkvæmdir samkvæmt samningi þessum.
8. gr.
1. Menn í liði Bandaríkjanna svo og skyldulið þeirra skulu, nema öðruvísi sé ákveðið berum orðum í samningi þessum, lúta lögum þeim og reglugerðum, sem tollyfirvöld Íslands framkvæma. Einkanlega skal íslenskum tollyfirvöldum heimilt, samkvæmt almennum ákvæðum íslenskra laga og reglugerða, að leita á mönnum úr liði Bandaríkjanna og skylduliði þeirra svo og á verktökum Bandaríkjanna og mönnum í þeirra þjónustu, sem ekki eru íslenskir þegnar, skoða farangur þeirra og ökutæki og leggja hald á muni samkvæmt ákvæðum slíkra laga og reglugerða.
2. Eigi skal tollskoða innsigluð opinber skjöl. Sérstakir sendiboðar, sem flytja slík skjöl, skulu án tillits til stöðu sinnar hafa meðferðis hverju sinni fyrirmæli um ferð sína. Fyrirmæli þessi skulu sýna tölu bréfa, er þeir hafa meðferðis, og geyma vottorð þess efnis, að þau séu einungis opinber skjöl.
3. Hervöld Bandaríkjanna mega flytja inn tollfrjálst útbúnað handa liði sínu og hæfilegt magn vista, birgða og annars varnings til nota fyrir liðsmenn eina og skyldulið þeirra svo og fyrir verktaka Bandaríkjanna og menn í þeirra þjónustu, sem eigi eru íslenskir þegnar. Þessi tollfrjálsi innflutningur skal háður því skilyrði, að afhent sé, auk tollskjalanna á tollskrifstofu á innflutningsstað, yfirlýsing, undirrituð af þar til bærum fyrirsvarsmanni liðs Bandaríkjanna. Afhenda skal íslenskum tollyfirvöldum skrá yfir þá fyrirsvarsmenn, sem heimild hafa fengið til að undirrita slíkar yfirlýsingar, svo og sýnishorn af nafnritun þeirra og stimplum, er nota skal.
4. Menn úr liði Bandaríkjanna og skyldulið þeirra mega, þegar þeir koma fyrsta sinn til Íslands til að taka við starfa sínum þar, flytja tollfrjálst persónulega muni sína og húsgögn til afnota, meðan á starfa þeirra stendur þar.
5. Menn úr liði Bandaríkjanna og skyldulið mega flytja inn tollfrjálst einkabifreiðar og bifhjól til sjálfs sín nota, meðan þeir dveljast á Íslandi.
6. Nú flytja menn úr liði Bandaríkjanna eða skyldulið þeirra inn aðrar vörur en þær, sem greindar eru í töluliðum 4 og 5 þessarar greinar, þar með taldar sendingar fyrir atbeina pósthúsa Bandaríkjanna, og skal þá slíkur innflutningur ekki samkvæmt þessari grein undanþeginn tolli eða öðrum skilyrðum.
7. Nú hafa vörur verið fluttar inn tollfrjálst samkvæmt töluliðum 3, 4 og 5 að ofan, og skal þá með fara sem hér segir:
    a. Slíkar vörur má flytja út aftur óhindrað, enda sé yfirlýsing sem gefin hefur verið út samkvæmt 3. tölul., sýnd á tollskrifstofu, ef um er að tefla innflutning samkvæmt þeim tölulið. Tollyfirvöld mega samt ganga úr skugga um, að endurútfluttar vörur séu í samræmi við yfirlýsingu, er út kann að hafa verið gefin, og að þær hafi raunverulega verið fluttar inn með þeim hætti, er segir í töluliðunum 3, 4 og 5.
    b. Slíkar vörur skulu eigi látnar af hendi á Íslandi, hvorki með sölu, að gjöf né í skiptum. Þó má, er sérstaklega stendur á, veita heimild til slíkrar afhendingar með þeim skilyrðum, er tollyfirvöld setja (t.d. um greiðslu á tolli og gjöldum og um að gætt sé fyrirmæla um eftirlit með verslun og gjaldeyri). Yfirvöld Bandaríkjanna munu, svo sem unnt er, setja og framkvæma fyrirmæli, er miða að því að koma í veg fyrir, að einstökum mönnum í liði Bandaríkjanna, skylduliði þeirra og mönnum í þjónustu verktaka Bandaríkjanna séu seldar eða afhentar umfram persónulegar þarfir sínar vörur, sem yfirvöld Bandaríkjanna flytja tollfrjálst til Íslands, hvernig svo sem þeim innflutningi er háttað, enda sé um að tefla vörur, sem yfirvöld Bandaríkjanna í samráði við íslensk stjórnvöld telja mest líkindi til, að verði seldar, gefnar eða látnar af hendi í skiptum á Íslandi.
8. Vörur, sem keyptar eru á Íslandi, skulu einungis fluttar út þaðan samkvæmt þeim reglum, er gilda á Íslandi.
9. Af Íslands hálfu skulu gerðar sérstakar ráðstafanir til þess, að látið sé af hendi án greiðslu tolla og gjalda eldsneyti, olía og smurningsolíur til afnota fyrir opinber ökutæki, flugvélar og skip liðs Bandaríkjanna og verktaka þeirra, sem eigi eru íslenskir þegnar.
10. Í töluliðunum 1–8 í grein þessari tekur orðið „tollur“ yfir tolla og hvers konar önnur gjöld, sem greiða ber af innflutningi eða útflutningi.
11. Íslensk tollyfirvöld og fjármála geta gert það að skilyrði fyrir hvers konar undanþágu eða tilhliðrun, að því er varðar tolla og gjöld samkvæmt samningi þessum, að gætt sé þeirra reglna, er þau telja nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir misnotkun.
9. gr.
1. Tolla- og fjármálayfirvöld Íslands og Bandaríkjanna skulu veita hvor öðrum aðstoð við rannsókn og öflun skýrslna til að koma í veg fyrir brot gegn lögum og reglugerðum um tolla og fjármál.
2. Hervöld Bandaríkjanna skulu láta í té þá aðstoð, sem þeim er unnt, til að tryggja það, að vörur, sem íslenskum tollyfirvöldum og fjármála er rétt að leggja hald á, séu þeim afhentar.
3. Hervöld Bandaríkjanna skulu láta í té alla þá aðstoð, sem þeim er unnt, til að tryggja greiðslu tolla, gjalda, sekta og upptæks fjár úr hendi manna í liði Bandaríkjanna eða skylduliði þeirra.
4. Nú leggja íslensk yfirvöld hald á opinber ökutæki og muni Bandaríkjaliðs vegna brots gegn íslenskum lögum og reglugerðum um tolla og fjármál, og skulu þá ökutæki þessi og munir afhentir réttum hervöldum Bandaríkjanna.
10. gr.
Lið Bandaríkjanna, menn í því, svo og skyldulið þeirra, skulu hlýða íslenskri gjaldeyrislöggjöf. Rétt yfirvöld Íslands og Bandaríkjanna skulu koma sér saman um sérstakar ráðstafanir til að afstýra því, að laun séu greidd í bandarískum gjaldeyri, svo og ráðstafanir til að heimila liði Bandaríkjanna að afla íslensks gjaldeyris á skráðu gengi og að fá hæfilegum fjárhæðum þess gjaldeyris breytt í erlendan gjaldeyri, er þeir hverfa af Íslandi.
11. gr.
Ríkisstjórn Íslands mun veita liði hvers þess ríkis, sem aðili er að Norður-Atlantshafssamningnum og þess æskir, þegar það lið dvelst á Íslandi, þau réttindi, sem liði Bandaríkjanna eru veitt í undanfarandi greinum þessa viðbætis.
12. gr.
1. a. Bandaríkin munu eigi gera kröfu til skaðabóta á hendur ríkisstjórn Íslands fyrir tjón, sem starfsmenn íslensku ríkisstjórnarinnar valda á eignum, sem Bandaríkin eiga og lið þeirra notar, eða á lífi og limum manna úr Bandaríkjaliði.
    b. Ríkisstjórn Íslands mun ekki gera kröfu til skaðabóta á hendur Bandaríkjunum fyrir tjón á eignum íslenska ríkisins á samningssvæðunum og mun ekki gera kröfur á hendur Bandaríkjunum, heldur bæta sjálf tjón á lífi og limum starfsmanna íslensku ríkisstjórnarinnar, sem verða kann á samningssvæðunum, þegar slíkur starfsmaður er þar vegna starfsskyldu sinnar að áliti fulltrúa, er Ísland og Bandaríkin skipa, og slíkt tjón á eignum, lífi eða limum hefur orðið af völdum manns úr liði Bandaríkjanna. Ríkisstjórn Íslands mun ekki heldur gera kröfu til skaðabóta fyrir tjón á eign íslenska ríkisins eða tjón á lífi eða limum starfsmanna íslenska ríkisins, er maður úr liði Bandaríkjanna veldur utan samningssvæðanna, enda telji skipaðir fulltrúar Íslands og Bandaríkjanna, að eignin hafi, er tjónið varð, verið notuð eða starfsmaðurinn verið að verki í sambandi við framkvæmd samnings þessa.
    c. Ísland og Bandaríkin munu eigi gera kröfur til skaðabóta hvort á hendur öðru fyrir tjón á skipum, sem Ísland eða Bandaríkin eiga, er slík skip eru notuð í sambandi við framkvæmdir samkvæmt samningi þessum, án tillits til þess, hvar slíkt tjón verður og hvort sem það verður af völdum manns í liði Bandaríkjanna eða starfsmanns íslensku ríkisstjórnarinnar. Ísland og Bandaríkin munu ekki gera kröfu til björgunarlauna, ef skip það eða farmur, sem bjargað var, var í eigu Íslands eða Bandaríkjanna vegna framkvæmdar samnings þessa.
    d. Í þessum tölulið taka orðin „í eigu Bandaríkjanna“, „í eigu Íslands“ og „í eigu Íslands eða Bandaríkjanna“ til skipa, sem Ísland eða Bandaríkin taka á leigu eða taka til hernota eða opinberra nota með leiguskilmálum eða Ísland eða Bandaríkin hafa önnur umráð yfir (nema að því leyti sem ábyrgð á skipunum eða áhætta á tjóni á þeim hvílir á öðrum aðila en Íslandi eða Bandaríkjunum eða vátryggjendum þeirra).
2. Ísland skal samkvæmt þeim ákvæðum, sem hér fara á eftir, úrskurða og greiða kröfur, aðrar en samningskröfur, vegna verknaða manna í liði Bandaríkjanna, sem af hlýst tjón á eignum manna eða stofnana á Íslandi eða tjón á lífi eða limum manna þar, annað en það, er greinir í næsta tölulið hér að framan.
    a. Kröfur skulu gerðar, um þær fjallað og samið eða dómur á þær lagður í samræmi við íslensk lög og reglur um kröfur, er rísa vegna verknaðar starfsmanna íslenska ríkisins.
    b. Íslandi er rétt að kveða á um hverja slíka kröfu, og Ísland skal greiða með innlendum gjaldeyri þá fjárhæð, sem um er samið eða úrskurðuð er.
    c. Slík greiðsla eða fullnaðardómur bærs íslensks dómstóls, þar sem synjað er greiðslu, skal vera bindandi úrslit sakarefnis fyrir Ísland og Bandaríkin.
    d. Sérhver krafa, sem Ísland greiðir, skal tilkynnt hervöldum Bandaríkjanna ásamt fullnægjandi skýrslum og gögnum.
    e. Kostnaður af fullnægingu krafna samkvæmt stafliðunum hér á undan skal jafnað niður á Ísland og Bandaríkin, svo sem hér segir:
    1. Þar sem Bandaríkin ein bera ábyrgð, skal fjárhæð þeirri, er úrskurðuð hefur verið eða dæmd, skipt í þeim hlutföllum, að Ísland greiði 15% en Bandaríkin 85%.
    2. Þar sem menn í liði Bandaríkjanna og íslenskir þegnar eiga báðir sök, þá skulu Ísland og Bandaríkin hvort um sig greiða helming hinnar úrskurðuðu eða dæmdu kröfu.
    3. Bandaríkjunum skal á hálfs árs fresti send skýrsla um fjárhæðir þær, sem Ísland hefur greitt síðasta missirið vegna hvers máls ásamt kröfu um endurgreiðslu. Endurgreiðsla skal fara fram, svo fljótt sem unnt er, í íslenskum gjaldeyri.
    f. Eigi skal maður í liði Bandaríkjanna sæta lögsókn vegna kröfu, er rís af verknaði, sem þessi töluliður tekur til.
3. Grein þessi tekur eigi til krafna, sem bornar eru fram af þegnum ríkis, sem á í styrjöld við Bandaríkin eða af bandalagsríki slíks óvinaríkis, né heldur til krafna, sem eiga rót sína að rekja til styrjaldarverka óvina eða beinlínis eða óbeinlínis til athafna Bandaríkjaliðs í orustu.
4. Hervöld Bandaríkjanna og réttir íslenskir embættismenn skulu hafa samvinnu um öflun gagna til afnota við sanngjarna dómsmeðferð og afgreiðslu krafna, sem Ísland og Bandaríkin eiga hlut að.
5. Bandaríkin munu afla nauðsynlegrar lagaheimildar til að framkvæma skyldur sínar samkvæmt þessari grein.