Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um neytendakaup
2003 nr. 48 20. mars
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. júní 2003. EES-samningurinn: XIX. viðauki tilskipun 1999/44/EB. Breytt með: L. 87/2006 (tóku gildi 30. júní 2006). L. 16/2016 (tóku gildi 1. apríl 2016). L. 81/2019 (tóku gildi 1. janúar 2020 nema III. kafli og 1. mgr. 20. gr. sem tóku gildi 6. júlí 2019; EES-samningurinn: XIX. viðauki tilskipun 2013/11/ESB, reglugerð 524/2013, 2015/1051). L. 131/2020 (tóku gildi 17. des. 2020; EES-samningurinn: XVII. viðauki tilskipun 2016/943).
I. kafli. Gildissvið.
1. gr. Almennt gildissvið laganna.
Lög þessi gilda um neytendakaup að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg mælt fyrir í lögum.
Með neytendakaupum er átt við sölu hlutar til neytanda þegar seljandi eða umboðsmaður hans hefur atvinnu sína af sölu.
Með neytanda er átt við einstakling sem kaupir söluhlut utan atvinnustarfsemi.
Umboðsmaður seljanda sem hefur atvinnu sína af sölu er samábyrgur seljanda vegna skyldna hans, nema neytanda hafi verið bent sérstaklega á að umboðsmaðurinn sé aðeins milliliður og ekki samábyrgur seljandanum. Samábyrgðin gildir ekki þegar seljandi sjálfur annast söluna.
Lög þessi gilda einnig um skipti eftir því sem við getur átt.
2. gr. Sérstakt gildissvið laganna.
Lög þessi gilda um:
a. pöntun hlutar sem búa skal til;
b. afhendingu á vatni;
c. kaup á kröfum og réttindum.
Lög þessi gilda ekki um:
a. fasteignakaup;
b. samninga um að reisa byggingar eða önnur mannvirki á fasteign;
c. afhendingu á raforku;
d. samninga þegar sá sem afhendir hlut skal jafnframt láta í té vinnu eða aðra þjónustu sem felur í sér mestan hluta af skyldum hans.
3. gr. Lögin eru ófrávíkjanleg.
Ekki er heimilt að semja um eða bera fyrir sig kjör sem eru neytanda óhagstæðari en leiða mundi af lögum þessum.
Ekki er heimilt að semja um að lög ríkis sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins gildi um kaupsamning sem er nátengdur yfirráðasvæði ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins ef það leiðir til kjara sem eru neytandanum óhagstæðari en leiða mundi af lögum þessum.
4. gr. Áhættan af sendingu tilkynninga.
Nú sendir samningsaðili tilkynningu í samræmi við ákvæði laga þessara og á þann hátt sem forsvaranlegt er miðað við aðstæður og getur sendandinn þá byggt á því að tilkynningin hafi verið send nógu snemma, komi annað ekki fram, þótt henni seinki, mistök verði við sendinguna eða hún nái ekki til gagnaðila.
II. kafli. Afhendingin.
5. gr. Afhendingarstaður.
Söluhlut skal hafa til reiðu til viðtöku á þeim stað þar sem seljandinn hafði atvinnustöð sína þegar kaup voru gerð. Ef kaup voru gerð án tengsla við atvinnustöð seljanda ber að afhenda hlutinn hjá neytandanum.
Ef seljandi hefur fleiri en eina atvinnustöð skal miðað við þá atvinnustöð sem kaupunum tengdist þegar litið er til þeirra atvika sem aðilar miðuðu við þegar kaup voru gerð.
Aðilum er heimilt að semja um annan afhendingarstað.
6. gr. Afhendingartími.
[Hafi samningsaðilar ekki komið sér saman um annað skal seljandi afhenda vöruna eða umráð yfir henni til neytanda án ástæðulausrar tafar, þó ekki síðar en 30 dögum eftir að gengið var frá samningi.] 1)
Ef samið hefur verið um svigrúm varðandi afhendingartíma á seljandinn rétt á að velja, nema atvik sýni að neytandi eigi að velja hann.
Ef seljanda í reiðukaupum er rétt að velja afhendingartíma skal hann tilkynna neytanda með nægum fyrirvara hvenær sækja megi hlutinn.
1)L. 16/2016, 32. gr.
7. gr. Afhendingin.
Söluhlutur telst afhentur þegar neytandi hefur veitt honum viðtöku.
8. gr. Viðbótarskyldur við sendingarkaup.
Ef seljandi á að sjá um að senda hlut er honum skylt að gera þá samninga sem nauðsynlegir eru til þess að hann verði fluttur á ákvörðunarstað með viðeigandi hætti og samkvæmt venjulegum skilmálum um slíka flutninga.
Ef seljandi á ekki að kaupa tryggingar vegna flutnings hlutarins verður hann, ef neytandinn æskir þess, að gefa þær upplýsingar sem neytandanum eru nauðsynlegar til þess að hann geti keypt sér slíka tryggingu.
Ef seljandi afhendir flutningsmanni hlut án þess að greinilega komi fram með auðkenningu, í flutningsskjali eða á annan skýran hátt, að hluturinn eigi að fara til neytanda verður seljandi að tilkynna neytanda greinilega hvar hann eigi að veita hlutnum viðtöku.
9. gr. Heimild seljanda til að halda eigin greiðslu.
Ef seljandi hefur ekki veitt lán eða greiðslufrest er hann ekki skyldur til að afhenda hlutinn, framselja skjöl eða á annan hátt að yfirfæra ráðstöfunarrétt yfir hlutnum, nema því aðeins að kaupverðið sé samtímis greitt.
Ef seljandi á að senda hlut til annars staðar getur hann ekki látið það hjá líða, en hann getur komið í veg fyrir að neytandinn fái umráðin þar til kaupverðið er greitt.
10. gr. Kostnaður.
Seljandi greiðir kostnað vegna söluhlutar þar til hann hefur verið afhentur. Ákvæði þetta gildir ekki um kostnað sem stafar af því að afhendingu seinkar vegna atvika sem varða neytanda.
Ef senda skal söluhlut til neytanda má semja um það að neytandi greiði til viðbótar kaupverðinu kostnað af sendingunni.
11. gr. Afrakstur af söluhlut.
Afrakstur af söluhlut, sem verður til fyrir umsaminn afhendingartíma, fellur til seljanda, enda hafi ekki verið ástæða til að ætla að afraksturinn félli til síðar. Afrakstur, sem síðar verður til, fellur til neytanda, enda hafi ekki verið ástæða til að ætla að hann félli til fyrr.
Aðilum er heimilt að semja á annan veg.
12. gr. Hlutir og kröfur sem bera vexti.
Kaup á hlutum ná til þess arðs sem ekki var gjaldfallinn fyrir kaupin. Sama gildir um réttinn til áskriftar fyrir nýjum hlutum, enda hafi ekki verið unnt að nýta réttinn fyrir kaupin.
Kaup á kröfu sem ber vexti ná til áfallinna vaxta sem ekki eru gjaldfallnir á umsömdum afhendingartíma. Greiða skal jafnvirði vaxtanna sem viðbót við kaupverðið, enda hafi krafan ekki verið seld sem óvís krafa.
Aðilum er heimilt að semja á annan veg.
III. kafli. Áhættan af söluhlut.
13. gr. Um það hvað í áhættu felst.
Þegar áhættan af söluhlut hefur flust yfir til neytanda fellur skylda hans til þess að greiða kaupverðið ekki niður þótt hluturinn eftir það farist, skemmist eða rýrni ef um er að ræða atvik sem ekki verða rakin til seljanda.
14. gr. Áhættuflutningur.
Áhættan flyst yfir til neytanda þegar söluhlutur hefur verið afhentur í samræmi við ákvæði 7. gr. Ef hlutar er ekki vitjað eða honum veitt viðtaka á réttum tíma og það má rekja til neytanda eða atvika sem hann varða flyst áhættan yfir á neytandann þegar hlutur er honum til ráðstöfunar og vanefnd verður af hans hálfu við það að veita hlutnum ekki viðtöku.
Ef neytandi á að vitja söluhlutar annars staðar en hjá seljanda flyst áhættan yfir til neytanda þegar afhendingartíminn er kominn og neytanda er kunnugt um að hluturinn er honum heimill til ráðstöfunar á afhendingarstaðnum.
Áhættan flyst ekki yfir til neytanda fyrr en söluhlutur hefur verið auðkenndur honum með merkingu á flutningsskjölum eða það hefur á annan hátt verið gert ljóst að hlutur er ætlaður honum.
[Í samningum þar sem seljandi sendir neytanda vöru skal áhættan af því að varan týnist eða skemmist færast til neytandans þegar hann eða þriðji aðili sem neytandi hefur tilgreint, annar en flutningsaðilinn, hefur tekið vöruna í sína vörslu. Áhættan skal þó færast yfir til neytandans þegar varan er afhent flutningsaðila ef neytandinn hefur fengið hann til að flytja vöruna og sá kostur var ekki í boði hjá seljandanum, með fyrirvara um réttindi neytandans gagnvart flutningsaðilanum.] 1)
Ef söluhlutur hefur verið keyptur og afhentur til reynslu eða á annan hátt með rétti til að skila honum aftur ber neytandi áhættuna af hlutnum þar til seljandinn hefur aftur veitt honum viðtöku. Þetta gildir þó ekki þegar neytandinn hefur rétt til að skila söluhlut samkvæmt ákvæðum í lögum eða sambærilegan rétt á grundvelli samnings um neytendakaup.
Neytandi ber þó ekki áhættuna af tilviljunarkenndum atburði sem verður meðan hluturinn er hjá seljanda, enda sé ekki unnt að rekja atburðinn til eiginleika hlutarins sjálfs.
1)L. 16/2016, 32. gr.
IV. kafli. Eiginleikar söluhlutar, gallar o.fl.
15. gr. Eiginleikar söluhlutar.
Söluhlutur skal, hvað varðar tegund, magn, gæði, aðra eiginleika og innpökkun, fullnægja þeim kröfum sem leiðir af samningi.
Ef annað leiðir ekki af samningi skal söluhlutur:
a. henta í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir til;
b. hafa þá eiginleika til að bera sem neytandinn mátti vænta við kaup á slíkum söluhlut að því er varðar endingu og annað;
c. henta í ákveðnum tilgangi sem seljandinn vissi eða mátti vita um þegar kaup voru gerð, nema leiða megi af atvikum að neytandi hafi ekki byggt á sérþekkingu seljanda og mati hans eða hafi ekki haft sanngjarna ástæðu til þess;
d. hafa þá eiginleika til að bera sem seljandi hefur vísað til með því að leggja fram prufu eða líkan;
e. vera í venjulegum eða öðrum forsvaranlegum umbúðum sem nauðsynlegar eru til að varðveita og vernda hann;
f. vera í samræmi við þær kröfur opinbers réttar sem gerðar eru í lögum eða opinberum ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laga á þeim tíma sem kaup eru gerð, ef neytandinn ætlar ekki að nota hlutinn á þann hátt að kröfurnar séu þýðingarlausar;
g. vera laus við réttindi þriðja manns, t.d. eignarrétt eða veðrétt. Söluhluturinn skal einnig vera laus við kröfur þriðja manns um réttindi í hlutnum, enda þótt þeim sé mótmælt, nema kröfurnar séu augljóslega órökstuddar.
16. gr. Gallar.
Söluhlutur telst vera gallaður ef:
a. hann er ekki í samræmi við þær kröfur sem fram koma í 15. gr.;
b. seljandi hefur við kaupin vanrækt að gefa upplýsingar um atriði varðandi hlutinn eða not hans sem seljandi hlaut að þekkja til og neytandi mátti ætla að hann fengi upplýsingar um, enda megi ætla að vanrækslan hafi haft áhrif á kaupin;
c. hann svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur við markaðssetningu eða á annan hátt gefið um hlutinn, eiginleika hans eða notkun nema seljandi sýni fram á að réttar upplýsingar hafi verið gefnar neytanda við kaupin eða að upplýsingarnar hafi ekki haft áhrif á kaupin;
d. nauðsynlegar upplýsingar um uppsetningu, samsetningu, notkun, umönnun og geymslu fylgja ekki söluhlut.
Regla c-liðar 1. mgr. gildir með sama hætti þegar söluhlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem annar en seljandi hefur gefið á umbúðum hlutarins, í auglýsingum eða við aðra markaðssetningu á vegum seljanda eða fyrri söluaðila.
Neytandi getur ekki borið neitt það fyrir sig sem galla sem hann vissi eða mátti vita um þegar kaupin voru gerð.
Neytandi getur ekki borið fyrir sig galla ef orsök gallans má rekja til efniviðar sem neytandinn hefur sjálfur lagt til. Þetta gildir þó ekki ef seljandinn hefði átt að ráða neytanda frá notkun efnisins vegna óhentugra eiginleika þess.
17. gr. Hlutur seldur „í því ástandi sem hann er“. Sala á uppboði.
Þótt söluhlutur sé seldur „í því ástandi sem hann er“ eða með öðrum áþekkum almennum fyrirvara telst hann gallaður þegar:
a. ástand söluhlutar er verra en neytandi hafði ástæðu til að ætla miðað við kaupverð og atvik að öðru leyti;
b. fyrir liggja atvik sem lýst er í b- eða c-lið 1. mgr. 16. gr.
Ef notaðir hlutir eru seldir á uppboði þar sem neytandi hefur haft möguleika á að vera viðstaddur gilda ákvæði 1. mgr. eftir því sem við getur átt.
18. gr. Tímamark galla.
Við mat á því hvort söluhlutur er gallaður skal miðað við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flyst yfir til neytanda, jafnvel þótt gallinn komi ekki fram fyrr en síðar.
Ef annað sannast ekki skal galli, sem upp kemur innan sex mánaða frá því tímamarki þegar áhættan af söluhlut fluttist yfir til neytanda, talinn hafa verið til staðar á því tímamarki þegar áhættan af söluhlut fluttist yfir til neytanda. Þetta gildir þó ekki þegar telja verður að það geti ekki á nokkurn hátt samrýmst eðli gallans eða vörunnar.
Seljandi ber einnig ábyrgð á galla sem kemur fram síðar ef ástæðu gallans má rekja til vanefnda af hans hálfu. Sama á við þegar seljandi hefur með ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum hætti ábyrgst að hluturinn hafi tiltekna eiginleika eða að hlut megi nota með venjulegum eða sérstökum hætti tiltekinn tíma eftir afhendingu. Ábyrgðaryfirlýsing er bindandi fyrir yfirlýsingargjafann með þeim skilyrðum sem fram koma í ábyrgðaryfirlýsingunni og í auglýsingum tengdum henni.
V. kafli. Greiðsludráttur. Úrræði neytanda vegna afhendingardráttar seljanda.
19. gr. Úrræði neytanda við greiðsludrátt.
Ef hlutur er ekki afhentur eða hann er afhentur of seint og ekki er neytanda um að kenna eða atvikum sem hann varða getur neytandi:
a. haldið eftir greiðslu kaupverðs samkvæmt ákvæðum 20. gr.;
b. krafist efnda samkvæmt ákvæðum 21. gr.;
c. krafist riftunar samkvæmt ákvæðum 23. gr.;
d. krafist skaðabóta samkvæmt ákvæðum 24. gr.
Réttur neytanda til skaðabóta fellur ekki niður þótt hann setji fram aðrar kröfur eða ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram.
Ef seljandi fullnægir að öðru leyti ekki nógu snemma skyldum sínum samkvæmt samningnum gilda ákvæðin um greiðsludrátt, eftir því sem við getur átt, þó ekki ákvæði 3. og 4. mgr. 23. gr. Aðilum er heimilt að semja á annan veg.
20. gr. Réttur neytanda til að halda eftir kaupverði.
Ef neytandi á kröfu á hendur seljanda vegna greiðsludráttar hins síðarnefnda getur neytandinn haldið eftir þeim hluta kaupverðsins sem nægir til þess að tryggja kröfu hans.
21. gr. Réttur til efnda.
Ef söluhlutur hefur ekki verið afhentur á umsömdum afhendingartíma getur neytandi haldið fast við kaup og krafist efnda.
Þetta gildir ekki ef um er að ræða hindrun sem seljandi ræður ekki við og heldur ekki ef efndir hefðu í för með sér slíkt óhagræði eða kostnað fyrir seljanda að það væri í verulegu ósamræmi við hagsmuni neytanda af efndum. Ef úr vandkvæðum greiðist innan hæfilegs tíma getur neytandi krafist efnda.
Neytandi glatar rétti sínum til efnda ef hann dregur óhæfilega lengi að krefjast þeirra.
22. gr. Fyrirspurnir.
Nú beinir seljandi fyrirspurn til neytanda um það hvort hann vilji veita hlut viðtöku þrátt fyrir seinkun eða hann tilkynnir neytanda að hann muni afhenda hið selda innan tiltekins tíma, en neytandi svarar ekki án ástæðulauss dráttar frá því að hann fékk tilkynninguna. Getur neytandi þá ekki rift kaupunum ef efndir verða innan þess tíma sem nefndur var.
23. gr. Riftun.
[Hafi seljandi ekki afhent hlut á þeim tíma sem seljandi og neytandi gerðu samkomulag um eða innan tímamarka skv. 1. mgr. 6. gr., skal neytandi fara þess á leit við seljanda að hann afhendi hlutinn innan viðbótarfrests. Nú afhendir seljandi ekki hlutinn innan viðbótarfrests og getur neytandi þá rift kaupum.
Ákvæði 1. mgr. gildir ekki ef seljandi hefur neitað að afhenda hlut eða ef afhending hlutarins innan umsamins frests er nauðsynleg forsenda samningsgerðar með tilliti til allra aðstæðna eða ef neytandi upplýsir seljanda um áður en gengið er frá samningi að nauðsynlegt sé að afhenda hlut á tilteknum degi eða fyrir þann dag. Í slíkum tilvikum, ef seljandi afhendir ekki hlutinn á þeim tíma sem samið var um við neytanda eða innan tímamarka sem tilgreind eru í 1. mgr., skal neytandinn eiga rétt á að rifta samningi þegar í stað.] 1)
1)L. 16/2016, 32. gr.
24. gr. Skaðabætur.
Neytandi getur krafist skaðabóta vegna þess tjóns sem hann bíður vegna greiðsludráttar af hálfu seljanda.
Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki ef seljandi sýnir fram á að greiðsludráttur hafi orðið vegna hindrunar sem hann fékk ekki ráðið við eða ekki er með sanngirni unnt að ætlast til að hann hefði haft hindrunina í huga við samningsgerð eða getað komist hjá eða sigrast á afleiðingum hennar.
Ef greiðsludrátt má rekja til þriðja manns sem seljandi hefur falið að efna kaupin að nokkru leyti eða öllu er seljandi því aðeins laus undan ábyrgð að þriðji maður væri það einnig samkvæmt reglu 2. mgr. Sama gildir ef greiðsludrátt má rekja til afhendingaraðila sem seljandi hefur notað eða til einhvers annars á fyrra sölustigi.
Lausn undan ábyrgð er til staðar meðan hindrun er fyrir hendi. Falli hún brott er unnt að koma fram ábyrgð, enda sé seljanda þá skylt að efna kaupin en hann láti það hjá líða.
Um fjárhæð skaðabóta fer samkvæmt reglum XI. kafla.
25. gr. Upplýsingaskylda um hindrun.
Ef hindrun kemur í veg fyrir að seljandi geti efnt kaupin á réttum tíma skal hann tilkynna neytanda um hindrunina og áhrif hennar á möguleika sína til að efna kaupin. Fái neytandi ekki slíka tilkynningu án ástæðulauss dráttar frá því að seljandi fékk eða gat fengið vitneskju um hindrunina getur neytandi krafist þess að það tjón sé bætt sem unnt hefði verið að komast hjá ef hann hefði fengið tilkynninguna með nægum fyrirvara.
VI. kafli. Úrræði neytanda vegna galla á söluhlut.
26. gr. Úrræði neytanda vegna galla.
Ef söluhlutur reynist gallaður og gallinn er hvorki sök neytanda né stafar af aðstæðum sem hann varða getur neytandi:
a. haldið eftir greiðslu kaupverðs samkvæmt ákvæðum 28. gr.;
b. valið milli úrbóta eða nýrrar afhendingar samkvæmt ákvæðum 29. og 30. gr.;
c. krafist afsláttar samkvæmt ákvæðum 31. gr.;
d. krafist riftunar samkvæmt ákvæðum 32. gr.;
e. krafist skaðabóta samkvæmt ákvæðum 33. gr.;
Réttur neytanda til skaðabóta fellur ekki niður þótt hann geri aðrar kröfur eða þótt ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram.
Reglurnar um galla gilda einnig um aðra ágalla á efndum seljanda, eftir því sem við á. Unnt er að semja um annað. Það gildir þó ekki um skyldur seljanda samkvæmt kaupsamningi til uppsetningar á söluhlut.
27. gr. Tilkynning.
Ef söluhlutur er gallaður ber neytanda að tilkynna seljanda um að hann muni bera gallann fyrir sig án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var. Frestur neytanda til að leggja fram kvörtun er aldrei styttri en tveir mánuðir frá því að hann varð galla var.
Ef neytandi leggur ekki fram kvörtun innan tveggja ára frá þeim degi er hann veitti söluhlut viðtöku getur hann ekki borið gallann fyrir sig síðar. Ef söluhlut, eða hlutum hans, er ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti er frestur til að bera fyrir sig galla fimm ár frá því að hlutnum var veitt viðtaka. Þetta gildir ekki ef seljandi hefur í ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum samningi tekið á sig ábyrgð vegna galla í lengri tíma. Frestir skv. 1. og 2. málsl. eiga ekki við ef um er að ræða galla skv. g-lið 2. mgr. 15. gr.
Jafnframt er neytanda heimilt að tilkynna þeim aðila um galla sem í samningi við seljanda hefur tekið að sér að bæta úr honum.
Neytandi glatar rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda um gallann innan tímamarka greinarinnar. Þetta gildir ekki ef seljandi hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans er á annan hátt ekki í samræmi við heiðarleika og góða trú.
28. gr. Réttur neytanda til að halda eftir kaupverði.
Ef neytandi á kröfu á hendur seljanda vegna galla söluhlutar getur neytandinn haldið eftir þeim hluta kaupverðsins sem nægir til þess að tryggja kröfu hans.
29. gr. Krafa um úrbætur og nýja afhendingu.
Neytandi getur valið á milli þess að krefja seljanda um úrbætur á galla á eigin reikning eða krefjast nýrrar afhendingar af seljanda. Þetta á ekki við ef fyrir hendi er hindrun sem seljandi ræður ekki við eða það hefur í för með sér ósanngjarnan kostnað fyrir seljanda.
Við mat á því hvort kostnaður er ósanngjarn skv. 2. málsl. 1. mgr. skal leggja áherslu á verðmæti ógallaðs söluhlutar, þýðingu gallans og hvort hægt er að beita öðrum úrræðum án verulegs óhagræðis fyrir neytandann.
Þótt neytandi krefjist ekki úrbóta eða nýrrar afhendingar er seljanda heimilt að bæta á eigin kostnað úr galla eða afhenda annan hlut án tafar. Ef seljandi býður fram úrbætur eða nýja afhendingu í samræmi við lögin getur neytandi ekki krafist afsláttar eða riftunar.
30. gr. Framkvæmd úrbóta og nýrrar afhendingar.
Úrbætur og ný afhending skulu fara fram án kostnaðar og verulegs óhagræðis fyrir neytanda, innan hæfilegs tíma og þannig að neytandinn fái bætt útgjöld sín úr hendi seljanda.
Seljandi á ekki rétt á að bæta úr sama galla eða afhenda nýjan söluhlut vegna sama galla oftar en tvisvar sinnum nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem réttlæta frekari úrbætur eða afhendingu.
Ef úrbætur eða ný afhending seljanda hafa það í för með sér að neytandi getur ekki notað söluhlut í meira en eina viku getur neytandi krafist þess að fá sambærilegan hlut til umráða á kostnað seljanda. Þetta á þó aðeins við ef krafan telst sanngjörn með hliðsjón af þörfum neytandans og þeim kostnaði og óhagræði sem það hefur í för með sér fyrir seljanda.
Ef ekki reynist um galla að ræða getur seljandi aðeins krafist greiðslu fyrir þær athuganir sem nauðsynlegar voru til að komast að raun um hvort söluhlutur væri gallaður, og greiðslu fyrir lagfæringu á hlutnum ef seljandi hefur gert neytanda það ljóst að hann þurfi sjálfur að bera umræddan kostnað.
31. gr. Afsláttur.
Ef ekki verður af úrbótum eða nýrri afhendingu skv. 29. og 30. gr. getur neytandi krafist afsláttar af kaupverði. Skal afslátturinn reiknaður þannig að hlutfallið milli hins lækkaða verðs og samningsverðsins svari til hlutfallsins milli verðgildis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi á afhendingartíma.
Ef sérstök rök mæla með því má ákveða afslátt með hliðsjón af þýðingu gallans fyrir neytanda.
Neytandi getur ekki krafist afsláttar þegar um er að ræða kaup á notuðum hlutum á uppboði þar sem neytandi hefur haft möguleika á að vera viðstaddur.
32. gr. Riftun.
Í stað afsláttar skv. 31. gr. getur neytandi rift kaupum nema galli sé óverulegur.
33. gr. Skaðabætur.
Neytandi getur krafist skaðabóta fyrir það tjón sem hann bíður vegna galla á söluhlut.
Um fjárhæð skaðabóta fer samkvæmt reglum XI. kafla.
34. gr. Tjón á öðrum munum.
Skaðabótaábyrgð seljanda fyrir tjón af völdum galla nær til, auk tjóns á söluhlutnum sjálfum, tjóns á hlutum sem söluhluturinn var notaður til framleiðslu á eða hlutum sem standa í nánu og beinu sambandi við fyrirhuguð not söluhlutar.
Neytandi getur krafist skaðabóta vegna annars tjóns á munum en fjallað er um í 1. mgr. nema þegar seljandi sýnir fram á að tjónið verði ekki rakið til mistaka eða vanrækslu af hálfu seljanda.
Þegar seljandi greiðir skaðabætur vegna tjóns á öðrum munum en söluhlutnum sjálfum tekur seljandi yfir kröfur neytanda gegn framleiðanda samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð.
35. gr. Krafa á hendur fyrri söluaðila.
Neytandi getur borið gallakröfu sína á hendur seljanda fram gegn fyrri söluaðila ef sams konar krafa vegna gallans verður höfð uppi af seljanda eða öðrum sem öðlast hefur hlutinn frá fyrri söluaðila.
Samningi við fyrri sölu, sem takmarkar rétt seljanda eða annars framsalshafa, verður ekki beitt gegn kröfu neytanda skv. 1. mgr. í víðtækara mæli en unnt hefði verið að semja um í skiptum neytandans og seljandans.
Ákvæði 27. gr. um tilkynningar gilda með samsvarandi hætti um ákvæði þessarar greinar.
Neytandi getur, með sömu skilyrðum og koma fram í 1.–3. mgr., gert kröfu vegna galla á hendur aðila sem samkvæmt samningi við seljanda eða fyrri söluaðila hefur framkvæmt vinnu við hlutinn.
Neytandi getur einnig gert kröfu á grundvelli 1. mgr. 84. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, ef það veitir honum víðtækari rétt en samkvæmt grein þessari.
Fyrri söluaðila er óheimilt að skuldajafna kröfu sinni á hendur seljanda á móti kröfu neytanda.
36. gr. Ábyrgð á upplýsingum skv. 16. gr.
Þegar sá er hlut hefur búið til eða annar fyrri söluaðili hefur gefið upplýsingar þær sem nefndar eru í 2. mgr. 16. gr. ber hann ábyrgð á því tjóni sem neytandinn verður fyrir vegna upplýsinganna, eftir atvikum óskipt með seljanda.
VII. kafli. Skyldur neytanda.
37. gr. Kaupverð.
Ef kaup eru gerð án þess að kaupverðið leiði af samningi eða upplýsingum frá seljanda, t.d. í auglýsingum eða útstillingum, skal neytandi greiða fyrir söluhlut það gangverð sem er á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður, við samningsgerðina, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Ef ekki er um neitt slíkt gangverð að ræða skal neytandi greiða það verð sem sanngjarnt er miðað við eðli hlutar, gæði hans og atvik að öðru leyti.
Ef kaupverðið á að ráðast af fjölda, máli eða þyngd skal við þetta miðað á þeim tíma þegar áhættan af söluhlutnum flyst frá seljanda til neytanda. Þegar kaupverðið er ákveðið eftir þyngd skal fyrst draga frá þyngd umbúða.
Seljandi getur ekki til viðbótar kaupverðinu krafist þóknunar fyrir að gefa út og senda reikning. Þetta gildir ekki þegar augljóst er að kaupverðið er staðgreiðsluverð en seljandi hefur eigi að síður veitt greiðslufrest.
38. gr. Greiðsla kaupverðs. Réttur neytanda til að halda eftir kaupverði.
Leiði greiðslutíma ekki af kaupsamningnum skal neytandinn greiða kaupverðið þegar seljandinn krefst þess.
Ef ekki hefur verið samið um annað ber neytanda ekki skylda til að greiða kaupverðið fyrr en hluturinn er afhentur neytanda eða stendur honum til ráðstöfunar í samræmi við samninginn og lög þessi.
Neytandi er ekki bundinn af ákvæðum fyrir fram gerðs samnings um skyldu til að greiða kaupverð á ákveðnum tíma án tillits til þess hvort seljandi uppfyllir skyldur sínar á réttum tíma.
Áður en neytandinn greiðir kaupverðið á hann rétt á að rannsaka hlutinn á venjulegan hátt ef það er ekki ósamrýmanlegt umsaminni aðferð við afhendingu og greiðslu kaupverðsins.
39. gr. Greiðslustaður kaupverðs.
Kaupverðið skal greiða á atvinnustöð seljanda. Ef seljandi hefur fleiri en eina atvinnustöð skal miðað við þá atvinnustöð sem kaupunum tengdist þegar litið er til þeirra atvika sem aðilar miðuðu við þegar kaup voru gerð. Ef seljandi hefur ekki atvinnustöð sem tengist kaupunum skal miðað við heimili hans. Ef greiðsla á að fara fram gegn afhendingu söluhlutar eða skjals skal greiðslan innt af hendi á afhendingarstaðnum.
Seljandinn ber ábyrgð á auknum kostnaði við greiðslu sem stafar af því að hann hefur flutt atvinnustöð sína eftir að kaupin voru gerð.
40. gr. Skylda neytanda til að stuðla að efndum kaupa.
Neytanda er skylt:
a. að stuðla fyrir sitt leyti að því, eftir því sem sanngjarnt er að ætlast til af honum, að seljandi geti efnt skyldur sínar og
b. taka við hlutnum með því að sækja hann eða veita honum viðtöku.
VIII. kafli. Afpöntun og skilaréttur.
41. gr. Afpöntun fyrir afhendingu.
Ef neytandi afpantar hlut áður en hann er afhentur getur seljandi ekki haldið fast við kaupin og krafist greiðslu. Ef ekkert annað leiðir af samningi aðila getur seljandinn þess í stað krafist skaðabóta fyrir það tjón sem afpöntunin veldur.
Aðilar geta samið um viðmiðunarskaðabætur við afpöntun. Viðmiðunarskaðabætur skulu þó ekki vera hærri en ætla mætti að skaðabætur yrðu skv. XI. kafla.
Ef ekki hefur verið samið um skaðabætur vegna afpöntunar fer um fjárhæð skaðabóta eftir XI. kafla.
42. gr. Skilaréttur eftir afhendingu.
Eftir að söluhlutur hefur verið afhentur ber neytanda að greiða kaupverð þrátt fyrir að hluturinn sé endursendur seljanda.
Skylda neytanda til greiðslu kaupverðs fellur niður:
a. við riftun;
b. ef aðilar hafa samið um skilarétt, t.d. ef hluturinn er keyptur til reynslu;
c. ef neytandi hefur slíkan rétt samkvæmt ákvæðum í lögum eða sambærilegan rétt á grundvelli samnings um neytendakaup.
Neytandi getur skipt söluhlut ef samið hefur verið um rétt til skipta eða hann leiðir af almennum réttarreglum.
IX. kafli. Úrræði seljanda vegna vanefnda af hálfu neytanda.
43. gr. Kröfur seljanda.
Ef neytandi greiðir ekki kaupverðið eða fullnægir ekki öðrum skyldum sínum samkvæmt samningnum eða lögum þessum, og það verður hvorki rakið til seljanda né atvika sem hann varða, getur seljandinn:
a. krafist efnda samkvæmt ákvæðum 44. gr.;
b. krafist riftunar samkvæmt ákvæðum 45. gr.;
c. krafist skaðabóta og vaxta samkvæmt ákvæðum 46. gr.;
d. haldið eftir greiðslum samkvæmt ákvæðum 9. gr.
Réttur seljanda til skaðabóta og vaxta fellur ekki brott þótt hann neyti annarra úrræða eða við það að slík úrræði verði ekki höfð uppi.
44. gr. Réttur til að krefjast efnda.
Seljandi getur haldið fast við kaupin og krafið neytanda um greiðslu kaupverðsins. Þetta gildir þó ekki á meðan ekki er unnt að greiða vegna stöðvunar samgangna eða greiðslumiðlunar eða vegna annarra atvika sem neytandi getur hvorki stjórnað né yfirunnið.
Ef hlutur hefur ekki verið afhentur glatar seljandi rétti sínum til þess að krefjast efnda ef hann bíður óhæfilega lengi með að setja slíka kröfu fram.
Um rétt seljanda til að krefjast efnda á þeirri skyldu neytanda að hann stuðli að efndum gilda ákvæði 21. gr. eftir því sem við á.
45. gr. Riftun.
Seljandi getur rift kaupum vegna dráttar á greiðslu kaupverðsins eða annarra samningsbrota þegar um verulegar vanefndir af hálfu neytanda er að ræða. Seljandi getur ekki rift kaupunum eftir að kaupverðið hefur verið greitt.
Einnig er unnt að rifta kaupum þegar neytandi greiðir ekki kaupverðið innan sanngjarns viðbótarfrests sem seljandi hefur sett til efndanna. Seljandi getur ekki rift kaupum meðan viðbótarfrestur er að líða nema því aðeins að neytandi hafi lýst því yfir að hann muni ekki efna kaupin á þeim tíma.
Ef neytandi hefur þegar veitt söluhlut viðtöku getur seljandi því aðeins rift kaupunum að hann hafi gert um það fyrirvara eða neytandi hafni hlutnum.
46. gr. Skaðabætur. Vextir.
Ef kaupverðið er ekki greitt á réttum tíma getur seljandi krafist vaxta af kaupverðinu í samræmi við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu.
Seljandi getur einnig krafist skaðabóta fyrir tjón af völdum greiðsludráttar neytanda. Þetta á þó ekki við meðan neytandi sýnir fram á að greiðsludráttur stafi af stöðvun almennra samgangna eða greiðslumiðlunar eða annarri hindrun sem neytandi hefur ekki stjórn á og ekki er með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað haft í huga við samningsgerðina, komist hjá afleiðingunum af eða yfirunnið. Reglur 3. og 4. mgr. 24. gr. gilda eftir því sem við á.
Um fjárhæð skaðabóta fer samkvæmt reglum XI. kafla.
47. gr. Upplýsingaskylda um hindrun.
Ef hindrun tálmar því að neytandi geti efnt kaupin á réttum tíma skal hann tilkynna seljanda um hindrunina og áhrif hennar á möguleika sína til efnda. Fái seljandi ekki slíka tilkynningu innan sanngjarns tíma frá því að neytandinn vissi eða mátti vita um hindrunina getur seljandi krafist bóta fyrir það tjón sem hann hefði getað komist hjá ef hann hefði fengið tilkynninguna í tíma.
48. gr. Ákvörðun um einkenni hlutar.
Nú á neytandi að ákveða lögun hlutar, mál eða aðra eiginleika hans og gerir það ekki á umsömdum tíma eða án ástæðulauss dráttar frá því að hann fékk um það hvatningu frá seljanda. Getur seljandi þá sjálfur ákveðið þessi einkenni í samræmi við það sem hann má ætla að séu hagsmunir neytanda. Þetta kemur ekki í veg fyrir að seljandi geti haldið fram öðrum kröfum sem hann á.
Seljandi skal upplýsa neytanda um þau einkenni sem hann ákveður skv. 1. mgr. og veita neytanda hæfilegan frest til að gera á þeim breytingar. Geri neytandi það ekki án ástæðulauss dráttar, eftir að hafa fengið tilkynningu frá seljanda, verður ákvörðun seljanda um einkennin bindandi.
X. kafli. Sameiginlegar reglur um riftun og nýja afhendingu.
49. gr. Réttaráhrif riftunar og nýrrar afhendingar.
Þegar kaupum er rift falla skyldur aðila til að efna þau niður.
Hafi kaup verið efnd að fullu eða að hluta af hálfu samningsaðila má krefjast skila á því sem móttekið hefur verið. Aðili getur þó haldið því sem hann hefur móttekið þar til gagnaðili skilar því sem hann hefur tekið við. Sama á við þegar aðili á rétt til skaðabóta eða vaxta og fullnægjandi trygging er ekki sett.
Ef seljandinn á að afhenda söluhlut á ný getur neytandi haldið hjá sér því sem hann hefur móttekið þar til afhending hefur átt sér stað að nýju.
Riftun hefur engin áhrif á samningsákvæði um [viðskiptaleyndarmál], 1) um lausn ágreiningsefna eða um réttindi og skyldur aðila sem leiðir af riftuninni.
1)L. 131/2020, 20. gr.
50. gr. Afrakstur og vextir þegar greiðslum er skilað.
Þegar kaupum er rift skal neytandi færa seljanda þann afrakstur til tekna sem hann hefur haft af hlutnum og greiða hæfilegt endurgjald fyrir veruleg not sem hann hefur að öðru leyti haft af honum.
Ef seljandi á að endurgreiða kaupverðið ber honum að greiða vexti í samræmi við ákvæði vaxtalaga frá þeim degi er neytandi tilkynnti seljanda að hann mundi bera fyrir sig gallann. Seljanda ber á sama hátt að greiða vexti frá þeim degi er hann tók við greiðslunni þegar neytandi er krafinn um endurgjald fyrir not af söluhlut skv. 1. mgr.
51. gr. Missir réttar til riftunar og afhendingar á ný.
Neytanda er því aðeins heimilt að rifta kaupum eða krefjast afhendingar á ný að hann geti skilað hlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni og hluturinn var í þegar neytandi veitti honum viðtöku. Neytandi glatar þó ekki rétti sínum til þess að krefjast riftunar eða nýrrar afhendingar þegar
a. ástæður þess að ekki er unnt að skila hlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni má rekja til eiginleika hans eða annarra aðstæðna sem ekki varða neytandann;
b. hluturinn hefur rýrnað, skemmst eða eyðilagst og það má rekja til verknaðar sem gera varð til að ganga úr skugga um hvort hann væri gallaður;
c. hluturinn hefur verið notaður af neytanda við fyrirhuguð not áður en neytanda varð ljós eða mátti verða ljós galli sá sem leiðir til riftunar eða kröfu um afhendingu á ný.
Neytandi glatar ekki heldur réttinum til riftunar eða nýrrar afhendingar ef hann við skilin bætir þá verðmætisrýrnun sem orðin er á hlutnum.
XI. kafli. Sameiginlegar reglur um skaðabætur.
52. gr. Umfang skaðabóta.
Skaðabætur vegna vanefnda af hálfu annars samningsaðila skulu svara til þess tjóns, þ.m.t. vegna útgjalda, verðmunar og tapaðs hagnaðar, sem gagnaðili bíður vegna vanefndanna. Þetta gildir þó einungis um það tjón sem aðili gat með sanngirni séð fyrir sem hugsanlega afleiðingu vanefndar.
Skaðabætur ná ekki til:
a. líkamstjóns;
b. tjóns í atvinnustarfsemi neytanda.
53. gr. Verðmunur við riftun.
Ef kaupum er rift og neytandi kaupir af öðrum (staðgöngukaup) eða seljandi selur öðrum (staðgöngusala) með forsvaranlegum hætti og innan sanngjarns tíma frá riftun skal, þegar verðmunur er reiknaður út, leggja til grundvallar kaupverðið og verðið við staðgönguráðstöfunina.
Ef kaupum er rift án þess að gerðar séu staðgönguráðstafanir þær sem um ræðir í 1. mgr. og unnt er að staðreyna gangverð söluhlutar skal, þegar verðmunur er reiknaður út, leggja til grundvallar kaupverðið og gangverðið á riftunartímanum.
Gangverð er það verð sem er á sambærilegum hlutum á afhendingarstað. Þegar ekki er um gangverð að ræða á afhendingarstað skal miða við verðið á öðrum stað sem með sanngirni má jafna til afhendingarstaðarins, þó þannig að taka skal tillit til munar á flutningskostnaði.
54. gr. Skylda til að takmarka tjón. Mildun ábyrgðar.
Samningsaðila, sem ber fyrir sig vanefndir af hálfu gagnaðila, er með sanngjörnum ráðstöfunum skylt að takmarka tjón sitt. Vanræki hann það ber hann sjálfur þann hluta tjónsins sem af því leiðir.
Skaðabætur má lækka ef þær teljast ósanngjarnar fyrir hinn bótaskylda þegar litið er til fjárhæðar tjónsins í samanburði við það fjártjón sem venjulega verður í sambærilegum tilvikum og atvika að öðru leyti.
XII. kafli. Ýmis ákvæði.
55. gr. Fyrirsjáanlegar vanefndir.
Um fyrirsjáanlegar vanefndir fer eftir 61. og 62. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup.
56. gr. Gjaldþrot.
Um rétt til að ganga inn í kaup, halda eftir greiðslu eða rifta kaupum vegna gjaldþrots samningsaðila fer eftir lögum um gjaldþrotaskipti o.fl.
57. gr. Vanefndir að því er varðar hluta hins selda.
Ef vanefndir seljanda varða einvörðungu hluta hins selda eiga reglur um greiðsludrátt og galla í V. og VI. kafla við. Neytandi getur rift kaupunum með öllu ef vanefndir eru verulegar á samningnum í heild sinni.
Ef ráða má af atvikum að seljandi hafi lokið afhendingu af sinni hálfu, þótt umsamið magn hafi ekki allt verið afhent, eiga reglurnar um galla við.
58. gr. Riftunarréttur neytanda við afhendingu í áföngum.
Ef seljandi á að afhenda hið selda í áföngum og vanefndir verða á tiltekinni afhendingu getur neytandi rift kaupum að því er hana varðar samkvæmt reglunum um riftun.
Ef vanefndir veita neytanda réttmæta ástæðu til að ætla að vanefndir verði á afhendingum síðar þannig að riftunarréttur skapist getur neytandi á þeim grundvelli einnig rift kaupum að því er síðari afhendingar varðar ef það gerist áður en sanngjarn frestur er liðinn.
Ef neytandi riftir kaupum að því er eina afhendingu varðar getur hann samtímis rift kaupunum varðandi fyrri eða síðari afhendingar ef slíkt samhengi er milli þeirra að þær nýtist ekki í þeim tilgangi sem gert var ráð fyrir við samningsgerðina.
59. gr. Riftunarréttur seljanda við afhendingu í áföngum.
Ef seljandi á að afhenda í áföngum og neytandi að greiða eða stuðla að efndum varðandi hverja afhendingu og vanefndir verða af neytanda hálfu á tiltekinni afhendingu getur seljandi rift að því er hana varðar samkvæmt reglum 45. gr.
Ef vanefndir veita seljanda réttmæta ástæðu til að ætla að slíkar vanefndir verði á síðari afhendingum að riftunarréttur skapist getur seljandi á þeim grundvelli einnig rift kaupum að því er þær afhendingar varðar ef það gerist áður en sanngjarn frestur er liðinn.
60. gr. Umönnun söluhlutar.
Nú sækir neytandi ekki söluhlut eða veitir honum ekki viðtöku á réttum tíma eða önnur atvik, sem neytanda varða, leiða til þess að hann fær hlutinn ekki afhentan. Skal seljandi þá á kostnað neytanda annast um hlutinn með þeim hætti sem sanngjarnt er miðað við aðstæður, enda hafi hann hlutinn í vörslum sínum eða geti með öðrum hætti annast hann.
Hafni neytandi söluhlut sem hann hefur veitt viðtöku skal hann á kostnað seljanda annast um hlutinn á þann hátt sem sanngjarn er miðað við aðstæður. Hafni neytandi söluhlut sem hefur verið sendur til hans honum til ráðstöfunar á ákvörðunarstað skal hann annast um hlutinn á kostnað seljanda, enda sé honum það kleift án þess að greiða kaupverðið eða baka sér með því ósanngjörn útgjöld eða óhagræði. Þetta á þó ekki við ef seljandi sjálfur eða einhver á hans vegum getur annast hlutinn á ákvörðunarstað.
Samningsaðili, sem annast skal um söluhlut, getur falið það þriðja manni samkvæmt reglum 74. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Ákvæði 75., 76., 77. og 78. gr. sömu laga um rétt aðila til skaðabóta og trygginga fyrir kostnaði, um sölu eða aðrar ráðstafanir á söluhlut og um reikningsgerð og reikningsfærslu gilda með sama hætti.
61. gr. Sérreglur um neytendahugtakið í tilteknum alþjóðlegum kaupum.
Um kaupsamninga um söluhluti við aðila sem hafa atvinnustöð eða heimilisfesti í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins gilda lög þessi um kaup á hlut til persónulegra nota fyrir kaupandann, fjölskyldu hans eða heimilisfólk, nema seljandinn hafi við samningsgerð hvorki vitað né mátt vita að hluturinn var keyptur í því skyni.
XIII. kafli. [Gildistaka o.fl.]1)
1)L. 81/2019, 24. gr.
62. gr. Innleiðing.
Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 12/2000 frá 28. janúar 2000, um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi.
[63. gr. … 1)] 2)
2)L. 81/2019, 24. gr. 2)L. 87/2006, 6. gr.
[64. gr.]1) Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2003.
Lög þessi gilda einvörðungu um þá samninga sem gerðir verða eftir gildistöku laganna.
1)L. 87/2006, 6. gr.
[65. gr.]1) …
1)L. 87/2006, 6. gr.
Ákvæði til bráðabirgða. … 1)
1)L. 87/2006, 8. gr.