Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um verslun með áfengi og tóbak
2011 nr. 86 23. júní
Ferill málsins á Alþingi.
Frumvarp til laga.
Tóku gildi 30. júní 2011. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 69/2014 (tóku gildi 6. júní 2014). L. 35/2022 (tóku gildi 1. júlí 2022). L. 80/2022 (tóku gildi 14. júlí 2022 nema b-liður 2. mgr. 170. gr., b-liður 1. mgr. 171. gr. hvað varðar samevrópska u-rýmisþjónustu og c-liður 1. mgr. 171. gr. sem tóku gildi 26. jan. 2023 og d-liður 258. gr. sem tók gildi 1. jan. 2023; EES-samningurinn: XIII. viðauki reglugerð 2027/97, 889/2002, tilskipun 2000/79/EB, 2009/12/EB).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við
fjármála- og efnahagsráðherra eða
fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna
hér.
I. kafli.
Gildissvið, markmið og yfirstjórn.
1. gr.
Gildissvið.
Lög þessi gilda um smásölu [ríkisins]
1) á áfengi og heildsölu á tóbaki.
Lög þessi taka ekki til skipa og [loftfara]
2) sem koma í landhelgi og hafa innan borðs áfengi eða tóbak sem hluta af tollfrjálsum forða ef með þann varning er farið samkvæmt sérákvæðum laga.
Ráðherra er heimilt að setja sérreglur um innflutning ferðamanna og áhafna skipa og [loftfara]
2) á áfengi og tóbaki.
1)L. 35/2022, 9. gr. 2)L. 80/2022, 266. gr.
2. gr.
Markmið.
Markmið laga þessara eru:
a. að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð,
b. að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu,
c. að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.
3. gr.
Yfirstjórn.
[Ráðherra]
1) fer með yfirstjórn á smásölu áfengis og heildsölu tóbaks og framkvæmd laga þessara.
1)L. 126/2011, 548. gr.
II. kafli.
Stjórnsýsla.
4. gr.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
Starfrækja skal sérstaka stofnun, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, sem sinnir smásölu áfengis og heildsölu tóbaks undir stjórn ráðherra.
ÁTVR skal haga starfsemi sinni í samræmi við áfengislög, tóbaksvarnalög og stefnu stjórnvalda á hverjum tíma.
Starfsemi ÁTVR skal miðuð við að hún sé sem hagkvæmust og afli tekna sem nægi til að greiða rekstrarkostnað og skila hæfilegum arði til ríkissjóðs, m.a. með tilliti til þeirra eigna sem eru bundnar í rekstri stofnunarinnar.
5. gr.
Forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.
Ráðherra skipar forstjóra ÁTVR til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa lokið háskólaprófi sem nýtist honum í starfi.
Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar, ber ábyrgð á daglegum rekstri og ræður aðra starfsmenn. Forstjóri ber ábyrgð á gerð ársskýrslu um rekstur og starfsemi ÁTVR og skal kynna hana fyrir ráðherra árlega.
6. gr.
Verkefni Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.
Helstu verkefni ÁTVR eru þessi:
a. Innkaup á áfengi til smásölu og tóbaki til heildsölu.
b. Birgðahald og dreifing á áfengi til áfengisverslana.
c. Rekstur áfengisverslana og þjónusta við viðskiptavini.
d. Birgðahald, heildsala og dreifing á tóbaki.
e. Að tryggja að allt tóbak sé merkt samkvæmt lögum um tóbaksvarnir.
f. Álagning og innheimta tóbaksgjalds.
g. Önnur verkefni sem tengjast smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki.
III. kafli.
Um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
7. gr.
Einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.
ÁTVR hefur einkaleyfi til að selja og afhenda áfengi í smásölu, sbr. 10. gr. áfengislaga. Um endursölu áfengis hjá vínveitingahúsum fer eftir ákvæðum sérlaga.
ÁTVR hefur einkaleyfi til að selja tóbak innan lands í heildsölu. Um smásölu tóbaks fer eftir ákvæðum laga um tóbaksvarnir.
8. gr.
Tóbaksgjald og merkingar tóbaks.
ÁTVR leggur á og innheimtir tóbaksgjald af tóbaksvörum sem hafa verið fluttar hingað til lands eða eru framleiddar hér á landi. Um fjárhæð tóbaksgjalds fer eftir ákvæðum laga um gjald af áfengi og tóbaki.
ÁTVR skal tryggja að allt tóbak flutt inn frá útlöndum eða framleitt hér á landi sem ætlað er til sölu sé merkt.
9. gr.
Verðlagning á áfengi og tóbaki.
Vöruverð í verslunum ÁTVR skal vera það sama hvar sem er á landinu.
Álagning ÁTVR á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 18% en álagning áfengis með meira en 22% hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 12%. Um ákvörðun á áfengisinnihaldi vísast til laga um gjald af áfengi og tóbaki.
Heildsöluálagning ÁTVR á tóbak skal vera 18%.
Álagning ÁTVR á áfengi og tóbak leggst á verð vöru að viðbættum öllum gjöldum nema virðisaukaskatti.
ÁTVR er heimilt að innheimta gjald af birgjum vegna kostnaðar sem leiðir af töku nýrrar áfengrar vöru til sölu. Skal gjaldið eingöngu standa straum af þeim kostnaði sem til fellur vegna skráningar, könnunar og annarra nauðsynlegra ráðstafana af hálfu ÁTVR við að taka nýja vöru til sölu.
ÁTVR er heimilt að innheimta gjald af birgjum sem leiðir af merkingu á tóbaksvörum. Skal gjaldið eingöngu standa straum af þeim kostnaði sem til fellur vegna merkingarinnar. Um merkingar tóbaks fer eftir ákvæðum laga um tóbaksvarnir.
10. gr.
Áfengisverslanir.
ÁTVR skal eiga og reka áfengisverslanir. ÁTVR skal sækja um leyfi til rekstrar áfengisverslunar til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi. ÁTVR ábyrgist fullnægjandi öryggis- og eftirlitsbúnað þess húsnæðis sem hýsir verslunina. Um afgreiðslutíma verslana fer eftir ákvæðum áfengislaga.
11. gr.
Vöruval.
[Jafnræðis skal gætt við val á vöru og ákvörðun um sölu og dreifingu áfengis.
ÁTVR er heimilt að hafna áfengi ef varan sjálf, umbúðir hennar eða markaðssetning:
a. höfðar sérstaklega til barna eða ungmenna yngri en 20 ára, m.a. hvað varðar texta, myndmál eða form,
b. sýnir börn eða ungmenni yngri en 20 ára,
c. gefur til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu,
d. gefur til kynna að áfengi hafi lækningaeiginleika,
e. felur í sér happdrætti, tilboð eða kaupauka,
f. hvetur til óhóflegrar neyslu áfengis,
g. tengist aðstæðum þar sem neysla áfengis skapar slysahættu eða er refsiverð,
h. skírskotar eða hvetur til refsiverðrar háttsemi,
i. skírskotar eða hvetur til neyslu ólöglegra ávana- og fíkniefna.
ÁTVR er heimilt að hafna áfengi ef umbúðir þess líkjast svo annarri vöru sem boðin er til sölu eða auglýst á almennum markaði hér á landi að neytendur geta ekki auðveldlega greint á milli þeirra.
ÁTVR er heimilt að hafna áfengi sem inniheldur koffein og önnur örvandi efni.
Ráðherra setur nánari reglur
1) um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi. Reglurnar skulu miða að því að tryggja vöruúrval m.a. með hliðsjón af eftirspurn kaupenda, jafnframt því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í áfengisverslunum.]
2)
1)Rg. 1106/2015, sbr. 1248/2015, 395/2018 og 1000/2020. 2)L. 69/2014, 1. gr.
12. gr.
Þjónusta og upplýsingar.
ÁTVR skal veita viðskiptavinum góða og vandaða þjónustu sem byggist á fagmennsku og hlutleysi.
ÁTVR skal veita viðskiptavinum sínum ítarlegar upplýsingar um þá vöru sem er á boðstólum, allt eftir því sem samrýmist lögum þessum, áfengislögum og öðrum lagafyrirmælum og reglum á hverjum tíma. Upplýsingarnar eiga að fela í sér almenna fræðslu um áfengi, uppruna þess, meðferð og notkun. Einnig á ÁTVR að standa fyrir eða veita upplýsingar um mögulega skaðsemi vörunnar og þá áhættu sem getur fylgt neyslu áfengis og tóbaks.
13. gr.
Samfélagsleg ábyrgð.
ÁTVR starfar með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi og vinnur gegn skaðlegri neyslu áfengis.
Þegar ástæða er til að ætla að kaupandi hafi ekki náð aldri til að kaupa áfengi samkvæmt áfengislögum skal ÁTVR ávallt láta hlutaðeigandi sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt.
ÁTVR er heimilt að neita að selja eða afhenda áfengi ef viðkomandi er áberandi ölvaður.
IV. kafli.
Önnur ákvæði.
14. gr.
Haldlagning áfengis.
Leggja skal hald á vörur þær sem lög þessi taka til og eru fluttar inn eða framleiddar í heimildarleysi. Innfluttar vörur skulu afhentar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins til ráðstöfunar.
15. gr.
Kæruheimild.
Ákvarðanir um rétt aðila, sem teknar eru á grundvelli þessara laga, eru kæranlegar til ráðherra.
16. gr.
Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara með reglugerð.
1)
1)Rg. 756/2011.
17. gr.
Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
…