132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipulögð leit að krabbameini í ristli.

13. mál
[17:14]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég lýsi fullum stuðningi við tillögu til þingsályktunar um skipulagða leit að krabbameini í ristli. Þingsályktunartillagan er endurflutt en ég hef verið meðflutningsmaður á samsvarandi tillögu áður. Ég tel að tillagan sé vel ígrunduð og vel unnin og mjög mikilvægt sé að fara að undirbúa skipulagða leit að krabbameini í ristli eins og hér er lagt til. Við höfum góða reynslu af skipulagðri leit að krabbameini í brjóstum kvenna og leghálsi en það er Krabbameinsfélag Íslands sem hefur haft veg og vanda af þeirri leit og séð um framkvæmd hennar og skipulag um allt land. Í þessari þingsályktunartillögu er ekkert sagt um hvernig fara eigi í þessa leit eða skimun en til þess að hægt sé að mæla með skimun af þessu tagi þarf hún að vera einföld, örugg og tiltölulega ódýr, meðferðarúrræði þurfa að vera þekkt og árangursrík þannig að til þess að það sé til einhvers að leita að sjúkdómnum sé möguleiki á að meðhöndla hann og lækna.

Það hefur sýnt sig í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið með skimun fyrir krabbameini í ristli, að einföld skimun og leit að blóði í hægðum er árangursrík og enn árangursríkari ef bætt er við ristilspeglun ef blóð finnst. Því tel ég mikilvægt að undirbúa slíka skimun vel og ganga tryggilega frá því hverjir eiga að framkvæma hana. Ég tel mjög mikilvægt að jafnt aðgengi sé fyrir fólk um allt land því að gert er ráð fyrir að þessi skimun sé fyrir alla fimmtíu ára og eldri án einkenna og fyrir einstaklinga óháð aldri sem falla undir ákveðna áhættuhópa sem eru vel skilgreindir í þingsályktunartillögunni. Þetta er því töluverður fjöldi. Ef karlar og konur sinna þessu kalli og fara samkvæmt leiðbeiningum í skimun eftir því sem mælt er með verður talsvert álag á heilsugæslustöðvarnar ef skimunin fer fram þar, sem ég tel að sé í raun og veru rétti starfsvettvangurinn, og því verði að gefa þessari skimun þann tíma að búið sé að tryggja bæði fjármagn og starfsfólk til að sinna þessu verkefni því að það mun valda auknu álagi sem ég tel mig hafa vissu fyrir að verði vel tekið, þ.e. ef starfskraftar eru fyrir hendi.

Skimunin er einföld þegar leitað er eftir blóði í hægðum en málið er flóknara þegar kemur að ristilspegluninni. Ég tel að einföld ristilspeglun gæti farið fram á flestum heilsugæslustöðvum eða þá að leitin yrði skipulögð með sama hætti og leit að krabbameini í brjóstum að ferðir sérfræðinga yrðu skipulagðar um allt land.

Númer eitt, tvö og þrjú tek ég undir þessa þingsályktunartillögu og vona að undirbúningurinn verði nægur og góður því að núna höfum við bæði tækni til að greina og tækni til að meðhöndla og þar með auka lífslíkur fjölmargra einstaklinga sem annars mundu greinast síðar á ævinni með þennan alvarlega sjúkdóm sem dregur allt of marga til dauða.

Fræðsla um áhættuþætti krabbameina er góð forvörn og eins er fræðsla til fólks um einkenni þessa sjúkdóms líka góð forvörn þannig að einstaklingar sem verða varir við blóð í hægðum sinni því og leiti læknis. Þó svo að skimun sé ekki þegar farin í gang er mikilvægt að kynna einkenni ristilkrabbameins. Orsakir krabbameins eru að sumu leyti þekktar og í flestum tilfellum má leita orsakanna í umhverfi okkar, í lífsháttum okkar og svo mun vera með ristilkrabbameinið líka. Því er fræðsla um mataræði og áhættuþætti sem þekktir eru hvað varðar ristilkrabbamein líka mikilvæg. Maðurinn er það sem hann borðar, má kannski segja um þennan sjúkdóm eins og holdafarið.

Enn og aftur fagna ég því að þessi þingsályktunartillaga komi fram svo snemma á þinginu að mögulegt verði að vinna hana vel í heilbrigðis- og trygginganefnd og að þess sjáist merki í fjárlagagerðinni að þessi vinna eigi að fara í gang.