Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

sveigjanleg tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi.

214. mál
[13:10]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mikilvægar áminningar um jafnrétti þegar kemur að fæðingarorlofi. Mig langaði að ræða aðeins við hv. þingmann um atriði sem hún nefndi varðandi hækkun þaks. Sannleikurinn er sá að það eru allt of margir makar, og þá helst þeir makar sem eru að fá betur borgað, sem því miður eru oftar karlmenn, sem sjá sér ekki fært að taka fæðingarorlof vegna þess að þak er á því hversu mikið er greitt. Þetta þak var að sjálfsögðu sett á eftir að það var kannski að einhverju leyti misnotað af fólki sem var með mjög háar tekjur, en það virðist alla vega vera allt of lágt eins og það er.

Nú er þessi þingsályktunartillaga sem er lögð fram að vissu leyti að fjarlægjast það markmið að báðir makar þurfi að taka fæðingarorlof. Hv. þingmenn sem leggja þetta fram virðast vilja fá meiri sveigjanleika, kannski vegna þess að fólk er ekki að nota þetta til fulls. Mig langaði að heyra frá hv. þingmanni um hækkun þaksins versus sveigjanleikann. Er hægt að ná því fram sem hv. þingmenn eru að reyna að ná fram, þ.e. að tryggja rétt allra foreldra, ef við hækkum þakið?