132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Náttúruvernd.

180. mál
[14:49]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað lýsa ánægju minni með að þetta frumvarp er komið fram. Við lestur þess og greinargerðarinnar virðist sem mjög vönduð vinnubrögð hafi verið höfð í frammi við gerð frumvarpsins.

Það er einkum tvennt sem vakti upp spurningar hjá mér og það eru þær sömu og fram komu í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, þ.e. dagsetningin sem fyrirhugað er að lögin taki gildi, 1. júlí 2008, og að ekki skuli alfarið bönnuð efnistaka á friðlýstum svæðum eða svæðum sem fyrirhugað er að friðlýsa.

Þegar frumvarpið er lesið yfir kemur ósjálfrátt í hugann fjall sem heitir Ingólfsfjall. Þar háttar einmitt nákvæmlega þannig til að ekki var hægt að koma böndum á efnistöku framan úr fjallinu vegna þess að núglildandi lög náðu ekki yfir framkvæmdir sem hófust fyrir tiltekna dagsetningu. Ef þetta frumvarp verður að lögum munu þau væntanlega koma böndum yfir efnistöku úr Ingólfsfjalli en nú er eins og kunnugt er tekið efni ofan af fjallinu, þ.e. því er ýtt fram af fjallinu og niður og hirt upp þar. Í frumvarpinu eru bæði settar skorður við umfangi landsvæðis, hversu stórt landið má vera umfangs sem efnið er tekið af og eins hversu mikið efni má taka af tilteknu svæði.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir skorðum við 50 þúsund teningsmetrum og jafnframt 25 þúsund rúmmetra svæði sem má taka af, svo ég vitni beint í frumvarpið, með leyfi forseta:

„… áætluð er samanlögð stækkun tveggja eða fleiri efnistökustaða vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði um 25 þúsund fermetra eða meira.“

Mér dettur enn og aftur í hug Ingólfsfjall. Það háttar nefnilega þannig til að uppi á því fjalli er vatnsból Selfyssinga eftir því sem ég best veit, vatnið kemur undan Ingólfsfjalli. Þarna á sem sagt að vera heimilt að taka mjög mikið magn af efni fram til 1. júlí 2008. Mér er því spurn: Hefur verið rannsakað gaumgæfilega hvort þessi mikla efnistaka úr Ingólfsfjalli geti hugsanlega haft áhrif á vatnsból Selfyssinga og nágranna? Mér finnst mjög mikilvægt að það sé skoðað. Og að öðru leyti: Hvaða áhrif hefur öll þessi efnistaka á fjallið og umhverfi þess?

Heilmikið er talað um frágang á námum og jafnframt, eins og kom fram áðan, um fjölda náma sem eru til á landinu. Eins og stendur eru þær 3.040 sem eru á skrá Vegagerðarinnar. Rúmlega 25% af þeim munu vera, eftir því sem fram kemur hér, án starfsleyfis, ef ég man rétt.

Ég kannast við námur sem Vegagerðin hefur tekið úr og ég verð að hrósa henni mjög fyrir frágang á þeim námum. Mér finnst Vegagerðin ganga mjög vel um þá staði sem hún fer um. En á síðustu árum hefur verklag Vegagerðarinnar breyst að því leyti til að hún annast ekki framkvæmdir sjálf nema að litlu leyti heldur býður þær út. Mér er því spurn: Hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem taka að sér verktöku fyrir hönd Vegagerðarinnar um frágang á námum? Eru gerðar kröfur til þeirra í útboði hvað það varðar?

Ég tel frumvarpið annars vera til mikilla bóta en hef þessar spurningar varðandi Ingólfsfjall sérstaklega af því að það er svo langt þangað til þessi lög eiga að ganga í gildi. Þeir sem eru með námur án starfsleyfa og annars sem krafist er í eldri lögum geta haft sína hentisemi allt fram til 1. júlí 2008. Það er hægt að gera ansi mikið og taka ansi mikið á þeim tíma með öllum þeim stórvirku vinnuvélum, búkollum og púðurdekkjum og öllu því sem við vorum að tala um hér áðan.