132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:01]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta frumvarp til laga um að setja skorður á beingreiðslur og stærð búa sé algjörlega ótímabært. Ég vil leiðrétta hv. þm. Jón Bjarnason þar sem hann segir að verð á mjólkurkvóta hafi farið mjög hækkandi. Það gerðist í nokkur ár en nú er svo komið að lítrinn í mjólkurkvóta hefur farið hraðlækkandi vegna þess að mikil eftirspurn er orðin eftir mjólk og það er miklu meiri sala á mjólk og mjólkurafurðum en var fyrir nokkrum árum. Ég tel að framboð og eftirspurn eigi að fá að ráða þarna og sá háttur sem hefur verið hafður á varðandi mjólkurframleiðsluna sé afskaplega mikilvægur. Það er alls ekki komið að þeim tímapunkti að það þurfi að fara að setja skorður við stærð búa. Ég held að það sé ekki eitt einasta bú í landinu sem er með eina milljón mjólkurlítra í framleiðslu. Ég held að hlutirnir verði bara að fá að þróast af sjálfu sér og ekki verði farið að setja lög um stærð búa fyrr en það verður í augsýn að þess þurfi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann ætli að setja líka stærðarskorður við fjárbú á landinu, fyrst hann vitnaði svona mikið í sauðfjárræktina, og eins á svínabú og hvaða stærðir hann sé þá með í huga í þeim greinum.