133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

þjónusta á öldrunarstofnunum.

118. mál
[14:29]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér upplýsir hæstv. heilbrigðisráðherra okkar um að það séu talsvert margar öldrunarstofnanir sem uppfylli ekki þær reglur sem þeim ber að uppfylla og sinni ekki þeirri þjónustu sem þeim ber að sinna og á að vera innifalin í því gjaldi sem stofnanirnar fá.

Mér fannst hæstv. ráðherra taka heldur létt á málinu að tala um að árétta þetta við stofnanirnar. Að sjálfsögðu er það krafa að allar þessar stofnanir uppfylli þau skilyrði sem sett eru. Um leið hljótum við að velta fyrir okkur hvernig í ósköpunum standi á því að öldrunarstofnanir séu að klípa af þjónustu við vistmenn sína. Getur verið að það sé vegna þess hve naumt er skammtað til reksturs þessara heimila, dvalarheimila og hjúkrunarheimila? Ætli hæstv. ráðherra þurfi ekki að velta því aðeins fyrir sér hvort verið geti að allar þessar stofnanir séu svo á horriminni að þær séu meira að segja farnar að seilast í að klípa af þjónustu við vistmenn? 40,4 milljarðar til viðbótar í hagnað hjá ríkinu á þessu ári. Það hlýtur að vera hægt að gera eitthvað.