136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Kjartan Ólafsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil árétta í andsvari mínu til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að hér er um að ræða þingsályktunartillögu um könnun á málinu. Ég get verið honum fullkomlega sammála um að við þurfum að forgangsraða og það gerum við með endurskoðun á samgönguáætlun. Á þessu vetrarþingi endurskoðum við hugsanlega þá áætlun sem fyrir liggur og forgangsröðum. Verk eins og þingsályktunin kveður á um kæmi þá inn í þá endurskoðun þannig að við mundum að sjálfsögðu skoða það heildstætt. Í þingsályktunartillögunni er ekki verið að tala um að það eigi bara að gera eitt og ekki annað þannig að ég hygg að við séum nokkuð sammála um þá leið.

Ég vil jafnframt gera þingmanninum grein fyrir því að í dag fara að mati Vegagerðarinnar um 300 bílar um Kjalveg á sólarhring. Það eru einkabílar, litlir bílar og rútur. Núna er vegurinn svo slæmur að miklar skemmdir verða á bílum. Þetta er gríðarlega vondur vegur þannig að við þurfum að bæta hann með einhverjum hætti.

Ég vil jafnframt benda þingmanninum á að vegtengingin er ekki bara fyrir leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hún er ekki síður á milli landshlutanna Norðurlands og Suðurlands, þar er styttingin mest.

Hæstv. forseti. Ég vil í lokin spyrja um hvernig hv. þingmaður skilgreinir ferðamannaveg, hvort hann er uppbyggður, hvort hann er frostfrír, hvernig slitlagi hann er lagður, hvort hann á að vera beinn eða í hlykkjum, o.s.frv.