150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[17:48]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum. Ég efast ekki um að þetta mál sé lagt fram af góðum hug og af raunverulegum vilja til að gera vel í þeim málum. Engu að síður eru sumar tillögurnar þess eðlis að ekki er hægt annað en gera athugasemdir við þær.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni að við þurfum auðvitað að taka á í kjörum umönnunarstétta og bæta vinnuumhverfi þeirra. En það er ekki það sem tillagan fjallar um. Þrátt fyrir það sem kemur fram í greinargerð með tillögunni var það bara seinast í dag eða í gær sem upplýsingar birtust um það að biðlistar hafi styst, sem betur fer, og bið eftir hjúkrunarrýmum hefur aðeins styst. Það er er vel, enda hefur hjúkrunarrýmum verið fjölgað á þessu ári og enn meiri fjölgun verður á næsta ári. 99 ný hjúkrunarrými verða tekin í notkun strax í febrúar eða mars á næsta ári. Allt er þetta til bóta. En það er ákveðinn ómöguleiki, ef nota má það hugtak, í 2. lið í tillögunni þar sem segir að færni- og heilsumat skuli gefið út eigi síðar en tíu dögum eftir að umsókn um það berst.

Færni- og heilsumat er tiltölulega flókið ferli. Þegar það ferli fer af stað þarf að afla gagna frá utanaðkomandi aðilum og þeir hafa, eins og staðan er í dag, tiltekinn frest til að senda frá sér gögn og afla þeirra. Megnið af þeim gögnum er ekki hægt að senda í dag með rafrænum hætti vegna þess að lög heimila það ekki. Þau fara með sniglapósti og afar vandséð hvernig væri hægt að gera þetta að meginreglu. Það væri frekar hægt að gera það að meginreglu að menn hröðuðu ferlinu sem helst mætti, en ég held að það sé algerlega útilokað að ætla að færa það í lög að gera þetta á tíu dögum. Upplýsingarnar eru ekki alltaf fyrirliggjandi. Það er ekki alltaf hægt að ná í þá aðila sem eiga upplýsingarnar eða búa yfir þeim o.s.frv. Það verður því einhvern veginn að milda þá aðferð sem þarna er.

Fram kemur í 1. lið að ríki og sveitarfélögum sé skylt að útvega öldruðum, sem hafa gengist undir færni- og heilsumat, dvalar- eða hjúkrunarrými. Þarna er aftur ákveðinn ómöguleiki. Í sjálfu sér ákveða sveitarfélögin ekki ein og sjálf að byggja hjúkrunarrými. Þau hafa engar heimildir til þess. Þetta er alltaf samkomulagsmál milli ríkis og sveitarfélaga og það verður að semja um þau atriði. Sveitarfélögin geta ekki legið með hjúkrunarrými á lager, þau geta ekki legið með einhvern helling af ónotuðum rýmum. En aftur, það er hægt að hvetja þau til þess, í samvinnu við ríkið, að standa sig betur en ég sé ekki hvernig hægt er að setja þann áskilnað niður eins og í tillögunni stendur, sérstaklega þegar ætla má að tillöguflytjendur telji að þetta sé verkefni sveitarfélaganna. Staðan í dag er ekki þannig. Nær væri að leggja fram lagafrumvarp sem legði það hreinlega til að sveitarfélögin tækju yfir slík verkefni.

Síðan er 4. liður, að læknar geti ákveðið að einstaklingur þurfi ekki að undirgangast færni- og heilsumat. Ég held að afar varhugavert sé að leggja það í hendur einhvers eins einstaklings að taka ákvörðun með þeim hætti án þess að fram fari formlegt mat. Læknir sem er í meðferðarsambandi við sjúkling er ekki endilega besti aðilinn til að taka ákvörðun og meta það nákvæmlega hver sé staða viðkomandi einstaklings. Það er miklu betra að hlutlaus utanaðkomandi aðili meti það. Við skulum átta okkur á því að verið er að taka mjög afdrifaríkar ákvarðanir fyrir hönd þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Ég tel að það sé betra að fá ytri sýn á það hver þörfin er og hvernig hún raðast nákvæmlega. Færni- og heilsumatskerfið er þannig að þar er einstaklingum raðað eftir þörf og þá er ekki hægt að segja að læknir eða einhver heilbrigðisstarfsmaður geti einn og sjálfur tekið ákvörðun um að þessi einstaklingur sé með þessa þörf af því að sá eða sú getur ekki haft neina yfirsýn yfir það hvernig þörf annarra í röðinni kann að vera. Þá er í rauninni verið að leggja það í hendur einhverra tiltekinna lækna hvort þeir eru frekir eða hver sé frekastur fyrir hönd skjólstæðinga sinna. Það gengur ekki. Það verður að vera einhvers konar samræming í þessu svo að allir búi við sömu aðstöðu og að ekki sé aðstöðumunur þar. Ég efast ekki um að farið er fram með góðum hug, ég ítreka það, en þarna er ákveðinn ómöguleiki sem menn eru að leggja upp.

Ég er algerlega sammála því sem kemur fram í 5. lið, enda hef ég lagt fram lagafrumvarp um það. En það er líka mjög flókið mál og búa þarf til umgjörð utan um það. Ég tel að sú vinna geti tekið mjög stuttan tíma og ef ég man rétt var a.m.k. annar flutningsmanna þessarar tillögu meðflutningsmaður á því frumvarpi. Ég held ég muni það rétt, hv. þingmenn leiðrétta mig ef svo er ekki.

Við erum stöðugt að reyna að bæta stöðuna. Við erum stöðugt að reyna að tryggja að fólk fái þá þjónustu sem það á rétt á. En þá verðum við að búa þannig um hnútana að við séum ekki að búa til hliðarleiðir fyrir fólk til að geta komist fram fyrir í einhvers konar, hvað eigum við að segja, sanngirnisröð eða búa til einhverjar hliðarleiðir svo að menn geti með einhverju öðru móti en venjulegum leiðum fengið vistunarmat sitt. Það er ekki hugsunin. Það að ákveða að einhver sé kominn í þá stöðu að þurfa á varanlegri heimilisfesti á hjúkrunarheimili að halda er mjög stór ákvörðun. Hún getur verið íþyngjandi fyrir einstaklinginn, það er ekki lítil ákvörðun fyrir einstakling að fara inn á hjúkrunarheimili, og fyrir ríkið sem sér um gagnagrunninn um færni- og heilsumat er algjört grundvallaratriði að upplýsingar sem þar eru um sjúklingana séu sambærilegar og það liggi algerlega fyrir að einstaklingur sem er á biðlista eftir hjúkrunarrými hafi farið í gegnum sama matsferli og einhver annar og að ekki sé verið að kippa honum fram fyrir.

Ég vona að hv. þingmenn skilji hvað ég er að fara. Það er eitt enn sem mér finnst vanta í tillöguna. Í tillögunni eða greinargerðinni er hvergi minnst á þann kostnað sem kann að hljótast af tillögunni. Mér finnst það almennt séð ókostur á tillögum, en það þarf ekki að gera þær ótækar. En ég held, í blárestina, að það sem við hljótum að vera sammála um sé það atriði sem er þó í stjórnarsáttmálanum um þessi mál, þ.e. við þurfum að bæta rekstrargrunn hjúkrunarheimilanna. Það er eitt af því sem við verðum að gera og ég hlakka til að eiga samtöl við þingmenn um þessi mál.