154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Við lifum á tímum mikilla breytinga og stórra áskorana sem krefjast þess að við tileinkum okkur nýjar aðferðir og ný viðhorf þegar við tökumst á við þann breytta heim sem við lifum nú í. Þegar kemur að stjórnmálunum þurfum við að hætta hörfa í þær skotgrafir sem einkenna stjórnmál dagsins í dag, skotgrafir til þess að verja örfáa hagsmunaaðila, skotgrafir íhaldssemi til að verjast breyttu heimsmyndinni, skotgrafir til að fela slæm vinnubrögð og frændhygli. Já, við þurfum að losna undan þeirri pólaríseringu sem hefur átt sér stað í stjórnmálum um allan heim undanfarna áratugi. Við þurfum nýja kynslóð stjórnmálamanna sem ekki er bundin af hlekkjum fortíðarinnar og sligi áratuga spillingar, kynslóð sem er tilbúin að vinna saman að því að takast á við þær breytingar og áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Aðferðafræði síðustu aldar dugar ekki til að tækla vandamál nútímans. Það er nauðsynlegt að hugsa upp á nýtt hvernig við byggjum upp samfélag sem verndar á sama tíma umhverfið og styður við þá sem þurfa aðstoð án þess þó að setja fjötra sem draga úr frelsi og framtakssemi einstaklingsins. Við þurfum stjórnmál sem snúa að því að vinna saman að því að tækla hin fjölmörgu stóru vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Þessi vandamál eru svo miklu stærri en hin pólitíska refskák sem háð er á Alþingi í dag. Þau eru af þeim skala að einungis með því að standa saman og vinna af heilindum hvert með öðru getur okkur tekist að standast þann storm sem næstu ár og áratugir munu bera með sér.

Frú forseti. Þetta eru þau stjórnmál sem ég vil sjá. Hvað með ykkur öll?