154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[12:31]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir sín orð hér áðan og yfirferð yfir þetta mikilvæga mál að ég tel. Ég ætlaði upphaflega bara að koma í andsvar en var of seinn til eins og fleiri í þessum sal. Það hefur komið fram í umræðunni að hér séum við að búa til nýja stofnun og þenja okkur út, en eins og hæstv. forsætisráðherra hefur sjálf sagt þá er það ekki þannig að það séu allar nýjar stofnanir vondar eða óþarfar og ég tel að við séum hér að byggja umgjörð sem er gríðarlega mikilvæg. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við verðum að vera sammála um eitt og það er að vera sammála um það að virða mannréttindi í þessu landi. Að því sögðu tel ég að Mannréttindastofnun Íslands, einhvers konar ný stofnun eins og hér kemur fram og birtist, sé mjög mikilvæg í þeirri vegferð okkar. Ég hlakka bara til að fá þetta mál til okkar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og takast á við það og þau sjónarmið sem hafa verið reifuð í umræðunni hér í dag.

Mig langar að reifa í örstuttu máli það sem mér finnst mikilvægt, þau sjónarmið sem ég tók sérstaklega til mín. Heilt yfir þá líst mér mjög vel á málið eins og það liggur fyrir en er alveg tilbúinn til þess að skoða góðar ábendingar eða athugasemdir sem geta gert málið enn betra en það er hér hjá okkur núna. Hér hefur m.a. verið velt upp því sjónarmiði hvort þau verkefni sem ættu að heyra undir þessa nýju stofnun, Mannréttindastofnun Íslands, gætu verið einhvers staðar annars staðar í kerfinu og m.a. hefur verið nefnd hér Mannréttindaskrifstofa Íslands. En það kemur líka ágætlega fram, herra forseti, í greinargerðinni að það er beinlínis þannig að Mannréttindaskrifstofan sjálf hefur lagt það til að það verði komið á fót svona lögbundinni mannréttindastofnun og henni verði ýtt úr vör. Þetta mál er ekkert nýtt, það á sér tiltölulega langan aðdraganda og ég held að það sé rétt að til að byrja með hafi Ólöf heitin Nordal verið með þetta mál á sínum snærum, 2016, og tilurð þessa og mikilvægi er ágætlega rakið í greinargerðinni. Það er líka rétt að nefna, vegna þess að það hefur komið líka fram að hér séum við að þenja út, að það fjármagn sem hefur runnið til Mannréttindaskrifstofu Íslands mun færast yfir í þessa nýju mannréttindastofnun. Við getum rætt það og munum sennilega taka á því hvort þessi nýja stofnun eigi að heyra undir Alþingi eða hvort hún eigi að vera stofnun undir einhverju ráðuneyti, þ.e. hjá framkvæmdarvaldinu. Ég get alveg skilið þau sjónarmið sem fram komu hér í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar, hvort það sé einhver vinkill sem þurfi að skoða sérstaklega. Það sem mér finnst mikilvægast og snerti mig, líkt og ég kom inn á í upphafi, er auðvitað sérstaklega það sem tengist málefnum fatlaðs fólks og mannréttindum þess. Það er beinlínis kveðið á um þetta í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk sem var fullgiltur hér árið 2016, hann kveður beinlínis á um það að til staðar þurfi að vera sjálfstæð innlend mannréttindastofnun sem hafi eftirlit með samningnum. Hér er verið að koma til móts við þetta og mér finnst það algert lykilatriði í umræðunni að við séum að styrkja þessa umgjörð alla í tengslum við mannréttindi.

Annað sem ég tel að snerti þetta mál og finnst í raun og veru skipta alveg gríðarlega miklu máli er það sem fram kemur í greinargerðinni um réttindagæslumenn fatlaðs fólks. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna í það og leyfa mér að lesa þessa setningu, með leyfi forseta:

„Í júlí 2011 tóku gildi lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, þar sem kveðið er á um að á landinu skulu starfa réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk. Þeir skulu fylgjast með högum fatlaðs fólks á sínu svæði og vera því innan handar við hvers konar réttindagæslu. Fatlaður einstaklingur getur leitað til réttindagæslumanns með hvaðeina sem varðar réttindi hans, fjármuni og önnur persónuleg mál. Réttindagæslumaður skal veita honum stuðning og aðstoða hann við að leita réttar síns eftir því sem við á. Einnig er gert ráð fyrir að hver sá sem telur að brotið sé á réttindum fatlaðs einstaklings geti tilkynnt það réttindagæslumanni auk þess sem réttindagæslumaður getur tekið upp mál að eigin frumkvæði.“

Mér finnst þetta mjög mikilvægt. Þarna komum við kannski inn á þetta mikilvæga sjálfstæði sem réttindagæslumenn þurfa að hafa í sínum störfum til að tryggja þessum viðkvæma hópi þau sjálfsögðu og nauðsynlegu réttindi sem við viljum öll að hann hafi í okkar góða samfélagi. Ég get skilið það hvernig málið er sett upp og það kemur ágætlega fram hér — nú þarf ég aðeins að leita í greinargerðinni sem er nokkuð ítarleg og góð — að með núverandi fyrirkomulagi eru réttindagæslumenn í dag undir félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og ég held að það sé rétt hjá mér að það hafi verið með þeim hætti frá því árið 2011. Þeir hafa heyrt undir ráðuneyti sem er stýrt af eða er svolítið undir áhrifum af pólitísku landslagi hverju sinni. Ég held að það sé mjög brýnt að komast úr því og tryggja enn betur þetta mikilvæga sjálfstæði réttindagæslumanna og ég held að það sé gert með þeim hætti sem lagt er til með í þessu frumvarpi.

En enn og aftur, ég hlakka til að fá þetta mál til okkar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og taka umræðu um það og þær athugasemdir og ábendingar sem hafa m.a. komið fram hérna í umræðunni í dag. Ég tel auðvitað mjög brýnt að þingið vandi sig en vinni nokkuð hratt í þessu máli.