154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[13:03]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hvort á að ráða, efni eða form? Ég tel að efni frumvarpsins eiga að ráða og efnið fjallar um stofnun og meginhlutverk hennar er að efla og vernda mannréttindi á Íslandi, þ.e. þetta er mannréttindamál. Það er sú efnislega umfjöllun, það er efnið sem þessi stofnun á að fjalla um, ekki það hvort hún heyri undir Alþingi eða sé hluti af framkvæmdarvaldinu. Ég heyrði efasemdir hjá ákveðnum þingmönnum hérna áðan hvort stofnunin eigi að heyra undir Alþingi eða að vera hluti af framkvæmdarvaldinu og hæstv. forsætisráðherra lagði það bara í hendur þingsins að ákveða það þannig að það er ekki endanlega útkljáð hvort verði. Þetta er þá háð breytingum í þinglegri meðferð. En það er hins vegar ljóst að það mun verða til mannréttindastofnun. Ég styð það heils hugar. Það liggur fyrir. Það er hins vegar staðsetningin í kerfinu, undir Alþingi eða framkvæmdarvaldinu, sem er vafamál. Þess vegna tel ég að það sé mikilvægt að málið fari til allsherjar- og menntamálanefndar af því að þetta er mannréttindamál. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Við erum að tala hérna um mikilvægan samning, þetta er hluti af lögleiðingu mikilvægs samnings, sem er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég er ekki að leggja þetta til til að tefja málið eða neitt slíkt heldur bara að það sé á réttum stað í nefndum þingsins. Það er grundvallaratriði. Það fái meðferð í nefnd sem er vön að fjalla um mannréttindamál.