132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Málsókn vegna meintra brota á Svalbarðasamningnum.

511. mál
[12:30]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það vakti athygli mína að hæstv. ráðherra fullyrti hér að Norðmenn hefðu brotið Svalbarðasamninginn og jafnframt að ákvörðun hefði verið tekin í ríkisstjórn um að stefna Noregi eða fara í málssókn gegn Noregi fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag og sú ákvörðun hefði verið tekin í ágúst 2004 eða fyrir 20 mánuðum síðan.

Ef hæstv. ráðherra og ráðgjafar hans eru þess fullvissir að Norðmenn hafi brotið þennan samning, þarf þá 20 mánuði til að safna gögnum um málið áður en hægt er að stefna þeim? Spurning mín er sú: Eftir hverju er verið að bíða?

Það má ekki verða að vana hjá okkur þegar önnur ríki brjóta á okkur gagnkvæma samninga að við setjumst þá bara niður og bíðum. Við hljótum að þurfa að fara af stað og leita réttar okkar. Ef sannfæringin er fyrir hendi, eins og hæstv. ráðherra sagði hér, um að brot hafi átt sér stað á milliríkjasamningi, þá eigum við að sjálfsögðu að leita allra þeirra úrræða sem við höfum til að leita réttar okkar.