135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

jarðskaut.

504. mál
[12:06]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa athyglisverðu fyrirspurn. Hún spyr fyrst hvernig eftirliti sé háttað með framkvæmd á reglugerð um raforkuvirki þar sem mælt er fyrir um fyrirkomulag og gerð jarðskauta og jarðskautstauga.

Þegar um er að ræða jarðskaut og jarðskautstaugar í eigu rafveitna skal ábyrgðarmaður raforkuvirkja og viðkomandi rafveitu sjá til þess að reglulegt eftirlit sé haft með ástandi þeirra af hálfu rafveitunnar. Meðal annars skal athuga:

1. jarðrask, t.d. vegna byggingarframkvæmda,

2. breytingu á grunnvatnsstöðu vegna framræslu lands,

3. ástand tenginga og jarðskautstauga þar sem hætta er á áverkum og annars staðar þar sem tengingar og taugar eru sýnilegar utan frá,

4. hvort breytingar og/eða viðbætur á jarðskautum hafi verið færðar inn á teikningar á greinargóðan hátt,

5. hvort breytingar hafi orðið í virkinu sem hækka hönnunarstrauminn verulega, þ.e. nýjar línur eða strengir tengist virkinu, spennar hækkaðir og þar fram eftir götum.

Þá skal reglulega mæla eða endurteikna jarðskautsviðnám ásamt skref- og snertispennu eftirtalinna virkja og endurmeta í samræmi við breyttan hönnunarstraum: Jarðskautskerfi háspenntra stöðva, orkuveraspenni rof- og tengistöðva, jarðskautskerfi um möstur í háspennulínum og jarðskautskerfi fyrir rekstrarjarðtengingum.

Þessi ákvæði eru samkvæmt verklagsreglum sem Neytendastofa gefur út. Skýrslur um frágang og skoðun ofangreindra kerfa skulu vera skráðar í innra öryggisstjórnunarkerfi viðkomandi rafveitu og faggiltar skoðunarstofur á vegum Neytendastofu gera síðan árlega úttekt á innra öryggi í stjórnunarkerfum og raforkuvirkjum rafveitnanna.

Þegar um er að ræða jarðskaut og jarðskautstaugar almennra bygginga, þ.e. neysluveitna, er almenna reglan sú að jarðskaut þeirra kemur í heimtaug frá viðkomandi rafveitu sem ber því ábyrgð, samanber ofangreint, að afhendingarstaðnum, þ.e. tengistað heimtaugarinnar. Ábyrgð á tengingu jarðskautstauga í rafmagnstöflu nýrra neysluveitna bera löggiltir rafverktakar og sama á við þegar um er að ræða sérskaut nýrra neysluveitna, t.d. þegar ekki er notast við jarðskaut rafveitu. Árlega framkvæma faggiltar skoðunarstofur á vegum Neytendastofu skoðanir á verkum sem löggiltir rafverktakar hafa tilkynnt og um er að ræða úrtaksskoðanir og fjölda verka sem skoðuð eru hjá hverjum rafverktaka, frá 10% og allt upp í 60% á ári, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Jarðskaut og jarðskautstaugar eldri neysluveitna eru, eins og annað í raflögninni, á ábyrgð eigenda þeirra eða umráðamanna. Árlega lætur Neytendastofa skoða raflagnir fjölda eldri neysluveitna auk þess að gefa út fræðsluefni þar sem eigendur og umráðamenn eldri neysluveitna eru hvattir til að láta yfirfara raflagnir þeirra, t.d. jarðskaut.

2. spurningin var þessi: „Hvert geta neytendur snúið sér með kærur vegna ónógs frágangs á jarðskautum?“

Það er náttúrlega mjög mikilvægt að það liggi fyrir og að neytendur séu meðvitaðir um það. Hér er um að ræða, eins og hv. þingmaður gat um í framsögu sinni, mjög mikilvægt mál sem snertir marga og það er oft erfitt fyrir neytandann að átta sig á því hvort þessir hlutir séu í lagi eða ekki, hvort þurfi að láta skoða þetta og mæla — það var nefnt hér áðan að margir telja sig kenna sér meins og heilsuleysis út af spennu o.s.frv., þannig að þetta þarf allt að skoða vel. Neytendur geta snúið sér til löggilts rafverktaka eða viðkomandi rafveitu eftir atvikum telji þeir frágang á jarðskautum ófullnægjandi. Þeir geta að sjálfsögðu — og það er náttúrlega lykilatriði — snúið sér til Neytendastofu sem mundi þá leiðbeina þeim um framhaldið og halda utan um málið. Neytendastofa er brjóstvörn íslenskra neytenda í öllu sem neytandinn telur út af bregða eða vera óljóst. Neytendastofa upplýsir, leiðbeinir og fer með mál eftir því sem við á, það er algjört lykilatriði í þessu svari. Þangað leitar neytandinn og getur alltaf leitað þegar hann er í óvissu eða telur brotið á sér og hefur ekki fengið málinu fylgt eftir annars staðar.

3. spurningin var þessi: „Hver er ábyrgð hönnuða á því að frágangur jarðbindinga sé í samræmi við reglugerðina?“

Því er til að svara að hönnuðir raforkuvirkja bera ábyrgð á vinnu sinni samkvæmt almennum reglum, en í reglugerðum raforkuvirkja eru hins vegar ekki ákvæði sem taka til ábyrgðar hönnuða raforkuvirkja.