136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég gleðst yfir því að við ræðum núna í björtu um frumvarp til breytinga á stjórnarskránni. En ég sakna þess enn þá að stór hluti hv. þingmanna á Alþingi, sem að jafnframt er stjórnlagaþing, skuli ekki láta sig varða breytingar á stjórnarskránni og taka ekki til máls. Í gærkvöldi sátum við í tómum sal um nótt að ræða stjórnarskrána og þar var stjórnlagaþing að störfum.

Mér skilst að aðeins einn þingmaður Vinstri grænna hafi tekið til máls í þeirri umræðu og það var í andsvörum, tvisvar. Annars hafa þeir ekkert til málsins lagt, ekkert. Eru þeir þó manna ákafastir í að fylgja kröfu hópanna á Austurvelli um að koma á stjórnlagaþingi. Þeir sitja sjálfir á stjórnlagaþingi hér á Alþingi og láta sig það engu varða.

Ég ætla að tala um 4. gr. í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga þar sem talað er um í fyrsta lagi að það væri tryggt að setja eigi lög og endurskoða stjórnarskrána. Hún eigi að vera byggð á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda. Ég vil hafa þetta í annarri röð. Ég vil hafa það þannig að það verði byggt á vernd mannréttinda, réttarríki og lýðræðisskipan. Ég skora á hv. nefnd sem fær málið til umræðu að breyta þessu.

Þá stendur hér, með leyfi forseta:

„Stjórnlagaþing skal skipað 41 þjóðkjörnum fulltrúa og jafnmörgum til vara. Um kjörgengi og kosningu fulltrúa á þingið og skipulag þingsins skal mælt fyrir í sérstökum lögum sem sett verði að loknum alþingiskosningum vorið 2009.“

Þetta er mjög athyglisvert, frú forseti. Núverandi Alþingi leggur kvaðir á næsta Alþingi að setja lög. Ég veit ekki hvort það er hægt. En við skulum gefa okkur að hið nýja Alþingi setji lög. Hvernig líta þau þá út? Hvernig verður kosið til stjórnlagaþings? Ég hef grun um að það séu ansi víðtækar og mismunandi skoðanir á því hvernig það skuli fara fram. Ég hugsa að margir vilji t.d. geta kosið ákveðinn mann eða konu sem bjóða sig fram ein og sér til stjórnlagaþings.

En hvað gerist ef sá maður eða sú kona fengi meginhlutann af atkvæðunum og einhver listi sem borinn er fram t.d. af Framsóknarflokknum fengi miklu færri atkvæði en fleiri menn? (Gripið fram í: Það er ekki verið að tala um það.) Rökrétt afleiðing af því er að menn myndi félög um framboð til stjórnlagaþings. Þau félög sem stunda pólitíska starfsemi hafa það meginmarkmið að bjóða fram til stjórnlagaþings og eru það með orðnir stjórnmálaflokkar. Það er svo einfalt.

Ég hugsa að þegar upp verður staðið, þegar menn leggja af stað í kosningu til stjórnlagaþings, muni það verða eintómir stjórnmálaflokkar sem bjóða fram og að þeir muni bjóða fram lista. Og vegna þess að núverandi stjórnmálaflokkar eru þau samtök og öfl í þjóðfélaginu sem best eru skipulögð munu þeir væntanlega bjóða fram lista flokkanna nákvæmlega eins og til alþingiskosninga. Menn ná því ekki því markmiði sem þeir þykjast ætla að ná, að geta útilokað flokkana frá stjórnlagaþinginu.

Ég vil undirstrika það sem ég ræddi í gærkvöldi — ég náði ekki að ræða allt — sem er að það þarf bara að breyta 79. gr. Meiru á ekki að breyta vegna þess að við erum að setja stjórnlagaþing í gang sem á að breyta stjórnarskránni. (Forseti hringir.)