Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[15:08]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hélt að ég hefði nú verið nokkuð skýr í minni ræðu áðan. 15 metrarnir eru það takmark sem við erum með og leggjum til og við teljum að það þurfi ekkert að fara yfir það og eigi ekkert að fara yfir það. Það eru mörkin, það eru stærðarmörkin á skipunum. Alveg eins og hv. þingmaður kemur inn á þá hefur núverandi kerfi boðið upp á það, eins og hún orðaði það svo snyrtilega hér áðan, að setja alls konar óskapnað utan á þessi skip sem gerir þau að vondum sjóskipum. Með þessu, að taka þessi brúttótonn út, er að mínu mati verið að reyna að koma í veg fyrir slíkt, þú getir bara breikkað skipin örlítið, þannig að sjóhæfni þeirra verði betri fyrir vikið. Ég hef ekki trú á því að íslenskir útgerðarmenn séu svo galnir að þeir fari að smíða skip sín þannig í laginu að þeir komi þeim ekki út á sjó. Það þarf hins vegar meira pláss í þessum skipum fyrir orkugjafa framtíðarinnar, hvort sem er vetni, ammoníak eða rafmagn. Það er það sem við erum að koma til móts við í þessu frumvarpi. Það er það sem verið er að gera. Það er verið að búa til pláss í skipunum þannig að við getum farið í þessa vegferð sem ég hélt að hv. þingmaður væri algerlega sammála, komandi úr Vinstri grænum, að fara í orkuskiptin. Það er ekki hægt að gera það með núverandi stærð á þessum skipum og það er það sem er verið að koma til móts við hér.