151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Traust á stjórnmálum. Það er grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að almenningur treysti stofnunum sem fara með opinbert vald. Í þeim efnum er ekki aðeins mikilvægt að tryggja traust almennings gagnvart stofnunum heldur einnig gagnvart lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Undanfarinn áratug hefur traust almennings gagnvart lýðræðislega kjörnum fulltrúum verið í sögulegu lágmarki. Almenningur missti allt traust í kjölfar bankahrunsins. Fyrir hrun mældist traust almennings til Alþingis reglulega í kringum 40–50% en síðan hefur það hæst mælst 34%. Sem betur fer hefur Alþingi brugðist við og gert ýmsar breytingar á reglum sem gilda um stjórnmálasamtök og kjörna fulltrúa og það er jákvætt, og jákvætt að almenningur hafi aukna yfirsýn yfir fjármál stjórnmálasamtaka og að skýr viðmið gildi um framlög til stjórnmálasamtaka.

Það er kannski ekki að furða þó að almenningur sé enn tvístígandi þegar kemur að trausti til Alþingis. Ég tel t.d. að lífeyrisþegar almannatrygginga beri lítið traust til okkar í ljósi þess hve oft við virðum að vettugi skýr fyrirmæli 69. gr. laga um almannatryggingar. Í stað þess að láta kjör lífeyrisþega fylgja launaþróun finna ráðherrar ótal leiðir til þess að draga niður uppfærslur og skilja auk þess frítekjumörk undan uppfærslunni. Skýrt dæmi fæst þegar árlegar hækkanir þingfararkaups eru bornar saman við lífeyri almannatrygginga. Fólk fær það einfaldlega á tilfinninguna að aðrar reglur gildi um valdhafa en fólkið. Ef við sem sitjum hér inni viljum öðlast aftur traust almennings þurfum við að svara þjóðinni þegar hún leggur fram skýrar kröfur. Það er ekki traust og það sýnir ekki traust og muni ekki vera á meðan við segjum að 100.000 kr. úr lífeyrissjóði skili bara 26.740 kr. í vasann en afgangurinn fari í skerðingar og skatta. Það skilar heldur ekki trausti þegar við snúum dæminu algerlega á hvolf og þeir sem auðinn hafa og fá arðgreiðslurnar fá 80% og yfir en ríkið 20% af því. Ég kem nánar að þessu í síðari ræðu.