149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[15:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um að vísa þessu máli, sem fram kom fyrr á þinginu, til hæstv. ráðherra. Í álitinu er því beint til ráðherra að vinna markvisst að endurskoðun vinnumarkaðslöggjafarinnar með það að markmiði að auka möguleika fólks á því að koma á jafnvægi milli atvinnu- og fjölskyldulífs.

Ég get tekið heils hugar undir það og stutt þetta mál, en vildi láta þess getið að í umræðu um þetta ákveðna mál, sem var í rauninni frumvarp til breytinga á lögum um 40 stunda vinnuviku, tók ég til máls og taldi þau lög í raun og veru úrelt.

Ég aðhyllist ekki að við þurfum að vera með lög, hvorki um 40 stunda vinnuviku né 35 stunda vinnuviku, eins og tilgreint var í því frumvarpi. Mér finnst eðlilegra að hæstv. ráðherra fái svigrúm til að vinna með samtökum aðila vinnumarkaðarins að því að skoða hvernig við getum sem samfélag hugað að sveigjanleika á vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar.