149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Velferðarnefnd fjallaði ítarlega um þessi nýju lög um þungunarrof áður en tillaga var borin upp um að afgreiða það til 2. umr., m.a. fékk nefndin á fund sinn fulltrúa Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Félagsráðgjafafélags Íslands, Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem og fulltrúa frá Öryrkjabandalagi Íslands, Þroskahjálp og Félagi áhugafólks um Downs-heilkenni o.fl. Við umfjöllun nefndarinnar um málið áður en það var afgreitt til 2. umr. var tekið tillit til allra beiðna nefndarmanna um gestakomur í málinu. Tillaga um afgreiðslu málsins var samþykkt af öllum viðstöddum nefndarmönnum. Hafi allir nefndarmenn fylgt sannfæringu sinni við afgreiðslu málsins til 2. umr. verður það ekki skilið öðruvísi en svo að nefndin hafi verið sammála því að athugun málsins væri fullnægjandi. Þeir nefndarmenn sem ekki voru sammála meiri hluta nefndarinnar skiluðu sérálitum þar sem afstaða þeirra kom fram og ekki er þar að greina að einhverjum hafi ekki þótt málið nægilega rannsakað.

Þegar málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umr. sendi hæstv. 8. þm. Norðaust., sem á sæti í velferðarnefnd, nefndinni lista með spurningum sem lúta að athugun nefndarinnar á málinu. Ekki er annað að sjá en að nefndin hafi þegar kannað öll þessi atriði við upphaflega athugun sína á málinu og brugðist við mörgum þeirra með breytingartillögum. Ekki hefur verið vísað til neinna nýrra gagna sem gefa ástæðu til nánari athugunar málsins.

Nefndin hefur á fyrri stigum umfjöllunar sinnar fjallaði ítarlega um langtímagetnaðarvarnir og má gera ráð fyrir því að aukið aðgengi ungs fólks að getnaðarvörnum muni draga úr tíðni þungunarrofa. Hér erum við hins vegar að tala um rétt konu yfir eigin líkama þegar hún hefur orðið þunguð. Þetta frumvarp hefur það að markmiði að tryggja sjálfsákvörðunarrétt konu yfir eigin líkama. Það hefur ítrekað verið nefnt í umræðu um þetta mál að yfir 1.000 þungunarrof séu framkvæmd á hverju ári hér á landi og það er sú tala sem þurfi að lækka.

En svarið er ekki að takmarka aðgengi kvenna að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á þeim grundvelli að við gerum ekki nógu vel í getnaðarvarnamálum. Þau mál eru með öllu ótengd. Að færa vikufjölda niður í 18 eða 20 vikur án þess að bæta inn undanþágum upp að 22. viku felur í sér takmörkun á núverandi rétti kvenna til að fá þungunarrof. Það gerir það. Það er ekki hægt að neita því. Þetta er staðreynd.

Að bæta við þeim undanþágum sem eru í núgildandi lögum felur í sér brot á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er gríðarlega mikilvægt að við eigum þetta samtal hér í þessum þingsal á réttum forsendum. Við hljótum að vera sammála um að ekki sé rétt að lögfesta beina lagalega mismunun gegn fötluðum í ný lög. Fötlunarfordómar og mismunun gegn fötluðum er liðin tíð eða ætti að vera það. Þess vegna er mikilvægt að þeir þingmenn sem standa fyrir því að færa vikufjöldann í 18 eða 20 vikur taki skýrt fram að þeirra afstaða sé sú að þeim þyki réttlætanlegt að takmarka núverandi rétt kvenna til að fara í þungunarrof, að þeim þyki rétt að neyða konur til að ganga með og eignast börn eftir 18. eða 20. viku, algjörlega óháð þeirra félagslegu aðstæðum eða þeim greiningum sem koma fram í 20 vikna sónar. Heiðarlegast væri ef þessi afstaða væri alveg skýr í orðræðum þingmanna, vegna þess að það að færa vikufjöldi niður í 20 vikur gefur konum ekki tíma til að bregðast við niðurstöðum 20 vikna sónars, ekki frekar en að færa það í 18 vikur.

Forseti. Ég ætla að ræða hér aðeins þær breytingartillögur sem eru að koma fram núna. Frumvarp um þungunarrof var lagt fram samhliða frumvarpi til laga um ófrjósemisaðgerðir, en í báðum málum eru lagðar til breytingar á lögum um ráðgjöf varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Sem framsögumaður þessa máls legg ég fram breytingartillögu til að fella út ákvæði í fyrrgreindum lögum sem verða markleysa verði framangreind frumvörp bæði að lögum. Breytingin er tæknileg og er lögð fram til að tryggja samræmi við frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir.

Að lokum vona ég svo innilega að við getum átt þessar umræður á málefnalegum forsendum. Og þegar talað er um að færa vikufjöldann niður í 18 og 20 vikur, út af því að nú eru tvær breytingartillögur þess eðlis, verðum við að segja rétt og satt frá hvað varðar afleiðingar þess að samþykkja þannig breytingu, að við segjum satt og rétt frá að þetta mun hafa þau áhrif að takmarka núverandi rétt konu til að fara í þungunarrof. Því annað er bara óheiðarlegt. Við skuldum almenningi það í þessu mikilvæga máli að vera heiðarleg.