151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir þessa spurningu. Það væri auðvelt að falla í þá gryfju að segja bara: Jú, það hefði verið fínt að eiga þessar fjárhæðir. En þegar við fórum af stað á þessu kjörtímabili þá blasti við vöntun á uppbyggingu innviða, ekki síst samgönguinnviða en fjölda margra annarra innviða, ekki síður félagslegra innviða. Það er rétt að ríkisstjórnin nýtti hverja einustu krónu sem sýnileg var í tekjuáætlunum í útgjöld og skildi mjög lítið svigrúm eftir. Það er það sem fjármálaráð hefur bent á allan tímann, að stefnufestan ætti að koma fram í fjármálaáætlun. Ég get verið alveg ærlegur með það að þetta þurfum við að bæta í áætlunargerð okkar og mögulega myndi slík stefnufesta hjálpa okkur við öflugri fjármálastjórn. (Forseti hringir.) En ég ætla ekki að kvitta undir það að það hafi bara verið þess vegna sem þessi viðsnúningur varð.