131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[11:06]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina því til hæstv. forseta að mér þykir afar eðlilegt að þessi umræða fari fram við hæstv. forsætisráðherra. Hér er um alvarlegt mál að ræða, árás á einn af hornsteinum lýðræðislegrar umræðu eins og hér á sér stað með árás á fréttastofu Ríkisútvarpsins, og þá er eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra sitji hér fyrir svörum.

Ég vil aðeins nefna það vegna orða hæstv. forseta þingsins áðan að ég tek undir það að vissulega er Alþingi einn af hornsteinum lýðræðislegrar umræðu hér á landi. Það er þó ekki þar með sagt að lýðræðisleg umræða sé bundin við þann stað einan. Það er ekki þar með sagt að það megi koma fram við aðrar stofnanir hvernig sem er af því að hér fer fram tiltekin umræða.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það og legg til að umræða eins og hér hefur verið beðið um fari fram við hæstv. forsætisráðherra. Hann ber ábyrgð á og er oddviti ríkisstjórnarinnar. Hér er um stórt mál að ræða, mál sem lýtur að lýðræðinu sjálfu hér í þessu landi og því er eðlilegt að hann sé til svara í því.

(Forseti (GÁS): Forseti áréttar að hér er verið að ræða fundarstjórn forseta.)