149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum þær upplýsingar að þungunarrof séu framkvæmd fram að 22. viku á þessum undanþáguákvæðum, það er framkvæmdin á þessum lögum, (IngS: Hvar?) nema þegar lífi eða heilsu konu er stefnt í þeim mun alvarlegri hættu, eða fóstur er ekki talið lífvænlegt til frambúðar. Þá er það umfram þessar 22 vikur.

Framkvæmdin eins og hún er núna, og það hefur komið fram í umfjöllun nefndarinnar og það hefði hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, sem hefur verið viðstaddur við málsmeðferð velferðarnefndar, getað upplýst hv. þingmann um.

Mörkin, 22 vikur, eru til komin vegna þess (IngS: Í hvaða grein?) að þar er lífvænleiki fósturs ekki metinn til staðar. Það er ástæðan fyrir því.

Hv. þingmaður spyr hvar þetta sé að finna í löggjöfinni. Þetta er ekki að finna í löggjöfinni. Það hefur hins vegar ítrekað komið fram á fundum hv. velferðarnefndar að svona er framkvæmdin. Svona eru lögin metin. Svona eru þau framkvæmd. (Gripið fram í.) Það er ekkert að breytast í núgildandi framkvæmd, ekki nokkur skapaður hlutur gagnvart því, nema að við ætlum að fjarlægja beina lagalega mismunun gegn fötluðu fólki úr löggjöfinni og við ætlum að gefa konum sjálfsákvörðunarrétt yfir því hvort þær þurfi á þungunarrofi að halda eða ekki í samræmi við núgildandi framkvæmd. Þannig er það.