150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að biðja hv. þingmann að fara að umbylta vinnumarkaðinum í andsvari heldur bara að velta því upp hvort við þurfum ekki að skoða það þegar atvinnulífið kemst hér, eins og hann sagði sjálfur, í meiri blóma, að veita fleira fólki en því sem er innan EES atvinnuleyfi. Í því felast gríðarleg tækifæri fyrir fólk sem er kannski með stöðu flóttamanns annars staðar í Evrópu en vill bæta lífskjör sín og ætti að vera svo sjálfsagt að við ættum að taka á móti.

Annars langar mig að árétta að þeim málum sem komu hér inn og voru tilbúin fyrir Covid var ekki sérstaklega forgangsraðað heldur var þeim málum forgangsraðað sem voru eftir og voru ekki tilbúin hjá ríkisstjórninni.

Síðan langar mig að nefna að það er rangt að mál séu ekki skoðuð. Í öllum málum mun nú sem hingað til verða viðtal, það verður hægt að leggja fram gögn og skoða og meta hvort endursending brýtur í bága við 42. gr. útlendingalaga sem er byggð á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og ef svo er þá er í þeim málum veitt efnismeðferð. Þessi mál hafa stækkað gríðarlega í kerfinu og stjórnsýslan er orðin það þung að ég held að við hljótum að vera sammála um að þar fara mannúð og skilvirkni saman, að geta veitt fólki svar fyrr, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. Það felst í því mannúð að fólk lifi ekki í óöryggi lengi og geti síðan hafið árangursríka aðlögun að samfélaginu. Fjöldi jákvæðra svara í fyrra gerir það auðvitað líka að verkum að við verðum að geta fylgt fólki vel eftir, gætt að því að skólakerfið taki vel á móti því, það eigi jöfn tækifæri hér á landi o.s.frv. Við erum með löggjöf til samræmis við löggjöf nágrannaþjóða okkar, m.a. varðandi verndarmál, (Forseti hringir.) og ég ítreka það sem ég sagði áður varðandi þá skoðun sem verndarmálin þó fá þrátt fyrir þessar breytingar sem hér eru lagðar til.