150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, birti í dag grein á vefsvæðinu Alþjóðlegir framfarasinnar, skulum við þýða það, en heitir Progressive international á ensku. Hún skrifar grein sem hún nefnir: „Tíminn fyrir nýja alþjóðasinna er núna“ eða „The Time for a New International is Now“. Ég ætla að reyna að gera mitt besta til að vitna í þessa grein á hinu ylhýra þingmáli voru en mér finnst mikilvægt að draga þessa grein hæstv. forsætisráðherra inn í þessa umræðu vegna þess að ég skil ekki hvernig þau viðhorf sem birtast þar tilheyra sama einstaklingi og greiddi þessu frumvarpi leið í gegnum ríkisstjórn.

Í greininni sem birtist í dag, eftir að fram kemur frumvarp sem ætlað er að auðvelda allar endursendingar, segir hæstv. forsætisráðherra, í lauslegri þýðingu minni, að baráttuna gegn kórónuveirunni megi ekki skilja frá alþjóðlegri og staðbundinni baráttu gegn félagslegum ójöfnuði. Sú barátta feli líka í sér baráttu gegn tilraunum til þess að færa félagslega áhættu yfir til viðkvæmari ríkja með því að flytja viðkvæma hópa þangað. Í lok greinar sinnar skrifar hæstv. forsætisráðherra að á tímum neyðarástands sé gríðarleg þörf á að standa saman í alþjóðasamhenginu og samvinna framsækinna afla fari fram yfir landamæri og gegn valdsæknum og popúlískum hægri öflum sem einblína á að nota þessa kreppu til að ýta áfram fortíðarþrá sinni og sýn. Hún kallar eftir því að framsæknir stjórnmálamenn um víða veröld standi saman og skapi nýja framtíð, skapi söguna.

Ég velti fyrir mér hvaða heimssýn er að baki því að ætla að auðvelda endursendingar flóttamanna á tímum sem þessum aftur til Grikklands, til Ítalíu, til Ungverjalands vegna þess að þeir hafa fengið vernd þar þótt við vitum að þessi ríki ráði nákvæmlega ekkert við að taka við þessum viðkvæmu hópum. Hvernig fer þetta tvennt saman, hvernig er það ein og sama manneskjan sem styður þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra út úr ríkisstjórn inn í þennan sal með einhverjum óskilgreindum fyrirvara um ég veit ekki hvað, það hefur ekki fengist svar við því, og að kalla eftir alþjóðlegri samstöðu, að vinna gegn félagslegum ójöfnuði, að tryggja það að ríkari og stöndugri ríki eins og Ísland séu ekki að færa viðkvæma hópa yfir til viðkvæmari ríkja í suðri. Það er nákvæmlega það sem stendur til að gera með þessu frumvarpi. Ekki hef ég heyrt forsætisráðherra útskýra hvernig hún getur í aðra röndina kallað eftir alþjóðlegri samstöðu og í hina röndina ýtt þessum viðkvæma hópi algjörlega út af borðinu og yfir á viðkvæmari ríki eins og Grikkland, eins og Ítalíu, eins og Spán sem bera nú þegar allt of þungar byrðar þegar kemur að vernd flóttamanna. Hún er mikil, alþjóðlega samstaðan hér.

Virðulegur forseti. Ég taldi mig hafa tíu mínútur í seinni ræðu. Það var greinilega misreiknað hjá mér þannig að ég mun ekki hafa færi á að koma öllu því að sem ég ætlaði. Mig langar eftir sem áður á þeim 30 sekúndum sem mér standa til boða að lesa úr umsögn Rauða krossins, með leyfi forseta:

„… telur Rauði krossinn það hrópandi þversögn og ekki með nokkrum hætti verjandi af hálfu stjórnvalda að afnema skyldu stjórnvalda samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga þegar er um að ræða mál samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga, þ.e. þegar viðkomandi umsækjanda hefur verið veitt alþjóðleg vernd að nafninu til í öðru ríki. (Forseti hringir.) […] Leggst Rauði krossinn því alfarið gegn 11. gr. frumvarps þessa […]“

Ég tek heils hugar undir það. Það er óskiljanlegt, herra forseti, (Forseti hringir.) að þetta mál sé á leiðinni hérna í gegn núna.