151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessar áætlanir eru tímabundnar. Það er verið að henda út Nýsköpunarmiðstöð. Ekkert er í hendi í staðinn. Það eru tímabundnar aðgerðir í nýsköpun sem beinast eiginlega aðallega að stærstu fyrirtækjunum sem fá mesta endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar og það er að klárast á seinni tíma þessarar áætlunar, á þeim tíma sem við þyrftum einmitt að leggja af stað til að byggja upp þessa framtíðarstoð efnahagskerfisins.

Ég ætla að fara í aðeins leiðinlegri gír í seinna andsvari mínu og tala um stefnumörkun málefnasviða sem vantar í þessa fjármálaáætlun. Er eðlilegt að stjórnsýslan og ríkisstjórnin geti einfaldlega ákveðið að sleppa því að koma fram með stefnumótun málefnasviða án þess að spyrja þingið? Vegna þessa að í þessari stefnumótun málefnasviða sjáum við hvaða áhrif stefna stjórnvalda hefur í mælanlegum markmiðum. Það vantar. Við fengum að vita seint undir síðasta ár hvernig gekk árið 2019 og svo fáum við ekkert fyrir 2020. Er ásættanlegt að þetta sé gert í samráðsleysi?