151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, fyrir andsvarið og vil nota tækifærið og þakka honum fyrir samstarfið í nefndinni sem hefur verið mjög gott og ánægjulegt. Ég tek heils hugar undir það að ferðaþjónustan er okkur ákaflega mikilvæg og þetta hefur verið stærsta atvinnugreinin okkar undanfarin misseri þar til skellurinn kom, veirufaraldurinn. Auðvitað tengjast fjölmörg störf ferðaþjónustunni og við erum að nýta þar okkar náttúruauðlindir eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, þetta er allt rétt hjá hv. þingmanni. En ég legg áherslu á það að nú á þessum tímamótum, ef við getum orðað það þannig, þegar hér hefur orðið mikið áfall, sérstaklega hvað varðar stærstu atvinnugrein þjóðarinnar, þá verðum við aðeins að horfa í kringum okkur og hugsa sem svo: Við verðum að styrkja aðrar atvinnugreinar til að fá meira jafnvægi í okkar atvinnugreinar. Hvað ef það kæmi annað áfall sem snerti ferðaþjónustuna? Það er óskynsamlegt að mínu mati að vera svo háðir einni tiltekinni atvinnugrein.

Þá nefndi ég það í ræðunni sérstaklega að við eigum að fara að hlúa að fyrirtækjunum, hlúa að menntun unga fólksins, að það fái þá menntun sem það þarf, og hvetja til menntunar til þess að það geti komist í önnur störf en tengjast kannski beint stærstu atvinnugrein þjóðarinnar. Allt skiptir þetta miklu máli en kjarni málsins er kannski sá að það er óskynsamlegt að vera með eina atvinnugrein svona yfirgnæfandi stóra sem færir okkur svona miklar útflutningstekjur. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega nauðsynlegt að vera ekki með eggin öll í sömu körfu, við þekkjum það máltæki, þegar kemur að þessum málum.