151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Að mörgu er að hyggja í þessu og ég vil byrja á því að taka í sundur eldri borgara annars vegar og öryrkja hins vegar. Við vitum alveg að því miður er alltaf talað dálítið mikið um þessa hópa í einu og sama orðinu þó að aðstæður þeirra séu afskaplega ólíkar. Við þekkjum að kerfinu hefur verið breytt dálítið fyrir aldraða en ekki eins mikið fyrir öryrkja. Við höfum dregið úr skerðingum, sannarlega, en það er langur vegur fram undan og margt sem þarf að gera. Við höfum breytt skattkerfinu og við höfum gert ýmislegt. Eins og við þekkjum hefur ekki náðst sama niðurstaða og sátt og vænst var í þeim vinnuhópum sem hafa verið settir á laggirnar til að ræða þessi kjör með þeim hópum sem við þau búa. Að mínu mati þurfum við að gera betur í því og reyna einhvern veginn — ég veit ekki hvort ráðherra á hverjum tíma þurfi að höggva á einhvern hnút til að segja: Við ætlum að gera þetta svona ef ekki næst samkomulag við þann hóp sem um er að ræða, þ.e. um hvaða leiðir séu bestar til að breyta kerfinu. Það er ekki bara að hækka lífeyri um 85.000 kr., eins og hv. þingmaður segir hér, það er ekki eina lausnin að mínu mati. Við þurfum að taka á margföldum skerðingum í kerfinu, við þurfum að leggja til breytingar á því. Ég held að kerfið verði aldrei skerðingarlaust en það þarf sannarlega að taka utan um það á fleiri en einum stað. Það þarf að bæta kjörin. Ég hef alltaf sagt það og það hefur ekki breyst. En ég held að við þurfum að horfa á fleiri en einn þátt og það að hækka einvörðungu lífeyrinn um 85.000 kr. og telja það svo ágætt, ég held að það eitt og sér dugi ekki sem aðgerð. En við þurfum sannarlega að reyna að ná einhverri samstöðu með því fólki (Forseti hringir.) sem þarf að þiggja bætur frá almannatryggingum.