151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Tvö mál. Ég ætla að halda aðeins áfram með það sem fyrri andsvarandi fjallaði um. Þegar við berum saman launaþróun á þessu kjörtímabili og hækkun á lífeyri almannatrygginga þá er hækkun lífeyris almannatrygginga 5,7% lægri, það munar 5,7% sem hefði þurft að bæta við til að halda í við launaþróun. Lög um lífeyri almannatrygginga eru mjög skýr. Ef launaþróun er hærri en verðlagsþróun þá á að taka mið af því við hækkun á lífeyri almannatrygginga. Vandamálið er að það er alltaf giskað á það fyrir fram hver launaþróunin eða vísitala neysluverðs muni verða, ekki hver raunin er. Á þessu kjörtímabili hefur alltaf verið giskað á þetta, nema fyrsta árið, minnir mig, að launaþróun eða verðlagsþróun yrði lægri en hún varð síðan raunverulega. Hækkunin sem lífeyrir almannatrygginga fékk á þessum árum var alltaf minni en raunverðbólga eða raunlaunaþróun. Þetta er vandamál númer eitt, tvö og þrjú og hefur gerst 20 sinnum á þeim 24 árum sem þetta kerfi hefur verið við lýði. Ofan á þetta bætist við sá munur sem er milli lífeyris og lífskjarasamninga, þar vantar 6,5 milljarða upp á lífeyri almannatrygginga af því að það voru krónutöluhækkanir í lífskjarasamningunum en ekki prósentuhækkanir. Þarna stöndum við í þessum málaflokki eftir þetta kjörtímabil. Hvernig er hægt að laga þetta? Hvernig getum við sem fjárveitingavald sagt í alvörunni að þessi lög um lífeyri almannatrygginga séu ekki að virka og líka (Forseti hringir.) sem löggjafarvald breytt þeim þannig að þau endurspegli í raun vilja okkar, hvernig við viljum að þetta sé?