140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg rétt og ég held að þurfi ekkert að ræða það neitt frekar.

Það væri hins vegar æskilegt að upplýst yrði hvaða aðferðafræðingar eða hverjir af fræðimönnum ríkisstjórnarinnar, sem eru ekki fáir og hafa sig mikið í frammi, eru tilbúnir að skrifa upp á þessar tillögur og koma fram og útskýra nákvæmlega fyrir okkur hvað lesa eigi úr niðurstöðu kosninganna sama hverjar þær verða því að það er mjög erfitt ef ekki ómögulegt að fá marktæka niðurstöðu úr þeim. Ég fer nánar í það í ræðu minni á eftir sem ég mun halda um þessi mál því að ég held að þessi umræða verði ekki tekin annars staðar en hér.

Ég vil halda áfram varðandi heilbrigðisþjónustugreinina. Hún hljómar svona, með leyfi forseta:

„Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.“

Hvernig getur það verið tryggt í stjórnarskrá að allir njóti andlegrar og líkamlegrar heilsu? Er það t.d. þannig að þeir hv. þingmenn, og er sá sem hér stendur ekki undan skilinn, sem mættu kannski losa sig við nokkur kíló (Gripið fram í: Já.) mundu ekki uppfylla 23. gr. stjórnarskrárinnar ef þetta verður samþykkt? Hvað verður gert í því? Ætlar einhver að sækja okkur til saka fyrir að brjóta í bága við stjórnarskrána?

Síðan er hitt:

„Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.“

Fullnægjandi — er það ekki það hæsta, besta? Geta menn þá ekki sótt ríkið til saka fyrir það að vera á biðlista eftir heilbrigðisþjónustu? Menn geta séð og bent á, því að við höfum ekki náð fullkomnun þótt við séum með góða heilbrigðisþjónustu, að betri heilbrigðisþjónusta sé veitt á einhverju sviði annars staðar. Geta þeir þá ekki sótt ríkið til saka og krafist skaðabóta eða úrvinnslu ef betri þjónusta er annars staðar sem mundi þá væntanlega teljast fullnægjandi?