139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að það er ljóst að ef menn ætla að draga saman seglin í rekstri opinberra stofnana er það yfirleitt í launakostnaði, það verður að segja upp starfsfólki.

Ég er hins vegar ekki sammála þeirri fullyrðingu hv. þingmanns í lokin að ef það væri rífandi atvinna liti þetta öðruvísi út. Mér finnst það ekki vera þannig. Það sem verið er að gera hér er að bruðla með peninga, að mínu mati. Það er verið að bruðla með peninga með því að fara í aukakostnað út af húsnæðismálum og það mun þýða færri stöðugildi. Ef við rækjum þessa stofnun í miklu góðæri, eins og hv. þingmaður er kannski að láta liggja að, væri það kannski með þeim hætti að við gætum bætt við annars staðar því að þörfin er svo víða, eins og hv. þingmanni er vel kunnugt um, og vandamálin, sama hvar það er í þessum grunnstoðum samfélagsins, heilbrigðisþjónustunni, löggæslunni og fleiri stöðum, það er alls staðar þörf fyrir peninga. Þess vegna finnst mér mjög grátlegt að vera að bruðla með peninga bara til að setja í einhverja sameiningu (Forseti hringir.) sem er ekki víst að skili neinu.