140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Margt athyglisvert kemur fram í ræðu hv. þingmanns. Ég vil kannski spyrja um ákveðna hluti vegna þess að hann er búinn að vera virkur þátttakandi í þessari umræðu.

Það verður erfitt og kannski ómögulegt að fá niðurstöðu í þessa kosningu sem mark verður takandi á út frá aðferðafræðilegum forsendum. Ég held til dæmis að mjög erfitt verði að átta sig á hvað fólk sem er búið að kynna sér í þaula greinarnar í tillögum stjórnlagaráðs — það kæmi mér á óvart ef einhver væri sammála þeim öllum, gefum okkur að einhver sé sammála segjum 50 af þessum 114 greinum og mjög ósammála 30, á hann að segja já eða á hann að segja nei?

Svo er annað, virðulegi forseti. Ef menn fara í greinar sem lítið hefur verið farið í, en auðvitað geta allir kynnt sér þetta, hvað þýða þær greinar? Lítil umræða hefur verið um þetta að öðru leyti en því að þeir aðilar sem hafa farið í forustu fyrir stjórnlagaráð hafa gríðarlegan aðgang að fjölmiðlum og ýmsir álitsgjafar hafa verið óhræddir við að segja okkur hinum að þetta sé allt saman stórkostlegt og er áhugavert að skoða hvaða fólk það er sem fer mest fram í þessu.

Til dæmis í 23. gr. tillögunnar um heilbrigðisþjónustu segir, með leyfi forseta:

„Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.

Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.“

Ég fer betur í þetta í seinna andsvarinu mínu en fljótt á litið sýnist mér við horfa fram á gósentíð (Forseti hringir.) fyrir lögfræðinga sem munu sækja rétt fólks samkvæmt stjórnarskrá ef þetta nær í gegn.