149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

friðlýsingar.

821. mál
[16:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil aftur þakka fyrir þessa góðu umræðu. Fjármagnið sem er sérstaklega tekið í þetta núna er einmitt hugsað til að reyna að flýta þessu ferli, sem hefur vissulega gengið of hægt á undanförnum árum. Fjármagnið hefur bæði verið notað til að auka við þann fjölda starfsfólks sem vinnur að þessu verkefni hjá Umhverfisstofnun, en líka til að vinna ýmsar greiningar sem ýtt geta undir það að ráðist verði í þessar friðlýsingar af meiri krafti. Þar má nefna úttekt á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða til að sýna fram á, á sama tíma og við erum að vernda náttúruna, að það er gríðarlega mikilvæg byggðaaðgerð að ráðast í friðlýsingar eða getur verið það.

En mig langar aðeins að koma inn á eitt hérna í lokin og tengja það við nýja skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, sem kom út fyrir viku síðan og það í aðdraganda aðildarríkjaþings samningsins um ný markmið fyrir 2030. Það er gríðarlega mikilvægt að Íslendingar beiti sér fyrir því að þar verði sett metnaðarfull markmið fyrir 2030 sem er á dagskrá samningsins að vinna á næsta ári og að því eru íslensk stjórnvöld að vinna.

Ég hef beitt mér á norrænum vettvangi fyrir ályktun sem kom frá umhverfisráðherrum Norðurlandanna í apríl sl. um að sett verði metnaðarfull markmið fyrir 2030. Þau þurfa að taka til nets verndarsvæða til að vernda búsvæði tegunda og vistkerfi til sjálfbærrar nýtingar auðlinda og endurheimtar þeirra gæða sem tapast hafa, bæði stofna, tegunda og búsvæða. Við, stjórnvöld, erum að vinna áætlun um alla þessa þætti. Það er nokkurn veginn kjarni málsins. Og friðlýsingarnar og verndarsvæðin eru hluti af því.

Að lokum held ég að ég geti sagt að búið er að smyrja friðlýsingarhjólin og þau eru farin að snúast. Við munum sjá frekari ávöxt þeirrar vinnu núna á allra næstu misserum.