150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjarskipti.

775. mál
[19:52]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir framsöguna í þessu viðamikla máli sem snýst um fjarskipti og breytingar á þeim. Eins og við vitum eru þær breytingar stöðugar og hraðar og mikil umræða hefur skapast undanfarna mánuði og ár um 5G-farnetsþjónustuna. Við höfum séð þá umræðu áberandi í nágrannalöndum okkar, til að mynda er í Bretlandi mikil og djúp umræða sem olli á sínum tíma pólitískum óróa þannig að hún komst inn í sjálfa bresku ríkisstjórnina.

Ég ætla að nýta þetta tækifæri hér og nú til að spyrja hæstv. ráðherra um þær kröfur sem kunna að vera gerðar á þessu sviði í framtíðinni. Í 87. gr. er kveðið á um þær vaxandi kröfur sem gerðar eru til 5G-farnetsþjónustu en um leið áréttað í frumvarpinu hversu mikilvægt það er að Ísland sé framarlega þegar kemur að því að þróa og stuðla að góðu regluverki þegar kemur að 5G-farnetsþjónustunni.

Markmiðið með ákvæðinu í 87. gr. eins og hér stendur á bls. 119 í frumvarpinu er að „stuðla að öryggi 5G-farnetsþjónustu á Íslandi og gagnsæi um stefnu stjórnvalda á þessu sviði að svo miklu leyti sem unnt er að móta hana nú, því öryggismál farnetskerfa eru enn í mótun alþjóðlega“.

Með leyfi forseta segir í frumvarpstextanum:

„Það er því ekki að fullu fyrirséð hvaða kröfur kunni að vera gerðar á því sviði í framtíðinni.“

Mig langar að nýta tækifærið til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi einhverjar hugmyndir um hvers konar kröfum við kunnum að standa frammi fyrir á þessu sviði í framtíðinni, kannski sér í lagi út frá þjóðaröryggi og hvort hann telji einhverja ástæðu til að dýpka þá umræðu enn frekar (Forseti hringir.) við meðferð þingsins á frumvarpinu.