131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[13:32]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Samkvæmt tæplega ársgamalli þingsályktunartillögu um áætlun í jafnréttismálum eru eftirtalin verkefni á herðum allra ráðuneyta:

1. Jöfnun á kynjahlutfalli í nefndum, ráðum og stjórnum.

2. Skilgreining á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna.

3. Fræðsla um jafnréttismál fyrir stjórnendur og starfsmenn ráðuneytanna.

4. Jafnréttisáætlanir og jafnréttisnefndir ráðuneytanna.

5. Skipun tengiliða jafnréttismála í öllum undirstofnunum ráðuneyta.

6. Jafnréttissjónarmið tryggð við stöðuveitingar.

7. Staða kvenna í ráðuneytunum og undirstofnunum þeirra.

Auk þess ber landbúnaðarráðuneytinu að taka þátt í grasrótarverkefni kvenna, Lifandi landbúnaður – Gullið heima.

Í svari við nýlegri fyrirspurn minni um stöðu jafnréttismála í landbúnaðarráðuneytinu kemur fram að kynjahlutfall í 56 nefndum, ráðum og stjórnum á vegum þess er afar ójafnt, þ.e. 217 karlar á móti 40 konum. Fjórar konur hafa verið ráðnar til starfa en 23 karlar. Ekki hefur verið gerð framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og ekki er að sjá að aðrar skyldur sem þingsályktunin leggur ráðuneytinu á herðar hafi heldur verið uppfylltar. Þó má ljóst vera að á því er einmitt mikil þörf.

Nokkrir frumkvöðlar meðal kvenna í bændastétt hafa á undanförnum árum unnið að auknu jafnrétti innan stéttarinnar. Það hefur ekki verið létt verk og lítinn stuðning að fá frá samtökum bænda en meðal árangurs má þó telja að á síðasta búnaðarþingi var samþykkt jafnréttisáætlun í fyrsta sinn í sögu samtakanna. Víst er að mikið verk er fyrir höndum að vinna það mikla karlavígi sem félagsstarf innan Bændasamtaka Íslands er en það er jafnframt til mikils að vinna að virkja konur í bændastétt til félagsstarfa.

Jafnréttismálum á Íslandi er víða ábótavant og eru þau því miður í sumum tilfellum á leið til verri vegar eins og í fleiri löndum þar sem íhaldsöfl ráða ríkjum. Þessa dagana stendur yfir þing Alþjóðaþingmannasamtakanna þar sem Ísland er vítt og fær atkvæðavægi sitt skert um 30% vegna þess að sendinefnd landsins er aðeins af öðru kyninu. Þetta er í samræmi við samþykkt Sameinuðu þjóðanna sem hefur að markmiði minnst 30% hlut kvenna á þjóðþingum.

Á fundum Evrópusambands sveitarstjórnarmanna hefur aðeins einu sinni setið kona fyrir Íslands hönd. Þar er Ísland líka lesið upp og vítt árlega fyrir slælega frammistöðu í jafnréttismálum. Enginn minnist nokkru sinni á þessar staðreyndir, enda passa karlarnir upp á þagnarsamsærið. Þeir telja það sér í hag.

Landbúnaðargeirinn er líklega á ýmsa lund íhaldssamari en aðrar atvinnugreinar og á meðan sjálft ráðuneytið stendur sig jafnilla og raun ber vitni er kannski ekki von á góðu. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

Telur ráðuneytið sig geta stutt jafnréttisbaráttu kvenna í landbúnaði? Ef svo er, með hvaða hætti?

Hefur ráðherra hugsað sér að nýta sér þau ráð sem tiltæk eru til að jafna stöðu karla og kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins?

Til hvaða ráða hyggst ráðherra grípa til að bæta úr því ófremdarástandi sem nú ríkir í þeim málum innan ráðuneytis hans?

Hefur landbúnaðarráðherra hugsað sér að framfylgja þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum frá 28. maí 2004? Ef svo er, þá hvernig?