132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Viðræður í varnarmálum.

[12:14]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hóf þessa umræðu um störf þingsins með því að vekja athygli á litlum og misvísandi upplýsingum sem íslenskir ráðamenn, ráðherrarnir í ríkisstjórninni, hefðu látið frá sér fara um viðræðurnar við Bandaríkjamenn nýverið. Ég spurði ákveðinna spurninga og hún er auðvitað alveg hrópandi sú þögn sem er á ráðherrabekknum sem svar við þeim spurningum. Hér sitja bara tveir hnípnir menn í vanda og hafa sammælst um einhvers konar þagnarbindindi í þingsölum, þagnarbindindi væntanlega vegna þess að þeir hafa báðir sagt of mikið. Hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt of mikið við ritstjóra Morgunblaðsins og hæstv. forsætisráðherra hefur sagt of mikið á opinberum vettvangi um hvert beri að stefna í utanríkismálum sem er ekki sama stefna og hæstv. utanríkisráðherra hefur. Þeir hafa því sammælst um að best sé að þegja. Þegja hér í þingsölum og segja sem allra minnst.

Greinilegt er að það er rétt sem hefur verið sagt að ritstjóri Morgunblaðsins taki ráðherra á teppið og þeir eigi að skrifta fyrir honum, sem hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra hefur ekki viljað gera, en ég geri ráð fyrir að hæstv. utanríkisráðherra geri viljugur enda Morgunblaðið öflugur liðsmaður Sjálfstæðisflokksins og tekur upp hanskann fyrir flokkinn í þessum leiðara eins og endranær.

Virðulegi forseti. Hún er hrópandi þessi þögn af ráðherrabekknum og sérkennilegt að þeir ráðherrar skuli ekki telja sig þurfa að ræða þessi mál við þing eða þjóð en við ritstjóra Morgunblaðsins gildir öðru máli, enda eins og ég benti á, er þar haukur í horni.

Við hljótum að gera þá kröfu, virðulegi forseti, að utanríkismálanefnd verði kölluð saman og henni verði gerð grein fyrir þessum nýju og forvitnilegu hugmyndum sem settar eru fram og sem kynntar hafa verið ritstjóra Morgunblaðsins.