151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[14:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég, líkt og aðrir hér inni, fagna þessari tillögu. Það skiptir ofboðslega miklu máli að við séum í góðri samvinnu við þessa nánustu nágranna okkar. Hér er vissulega byggt á skýrslu sem vitnað var í áðan en hún hefur verið unnin af mikilli vandvirkni og í samtali við grænlensk yfirvöld og Grænlendinga. Það er beinlínis talað um það í nefndarálitinu að þetta samstarf eigi ekki að vera á forsendum okkar heldur eigi að leita leiða til að finna samstarfsfleti sem eru í takt við vilja og áhuga beggja þjóða. Ég vísa því á bug áhyggjum hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar hér áðan.