132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Dómstólar og meðferð einkamála.

670. mál
[17:00]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um dómstóla. Lögin eru frá árinu 1998 og hefur þeim aldrei verið breytt. Meginefni frumvarpsins lýtur að því að gera réttarkerfið skilvirkara með því að veita aðstoðarmönnum dómara auknar heimildir. Auk þess eru lagðar til breytingar á lögunum sem tímabærar þykja.

Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að dómstjóra héraðsdómstóls verði veitt heimild til að fela löglærðum aðstoðarmönnum héraðsdómara að fara með dómstörf að ákveðnu afmörkuðu leyti, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Hér er rétt að leggja áherslu á að um er að ræða heimild til dómstjóra en ekki skyldu og getur dómstjóri ákveðið, ef hann svo kýs, að nota heimildina aldrei. Eins og lögum er í dag skipað er aðstoðarmönnum ekki heimilt að fara með mál í eigin nafni heldur verður héraðsdómari sjálfur að ljúka þeim og á sína ábyrgð. Meginfjöldi þeirra dómsmála sem héraðsdómstólunum berast á hverju ári eru svonefnd útivistarmál, þ.e. mál þar sem þing er ekki sótt af hálfu stefnda eða þingsókn hans fellur niður áður en greinargerð er skilað af hans hálfu og dómur er lagður á málið eftir þeim gögnum sem stefnandi hefur lagt fram. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er dómstjóra m.a. heimilað að fela aðstoðarmanni að ljúka slíku máli endanlega í sínu nafni og ábyrgð. Með því móti sparast tími héraðsdómarans, auk þess sem niðurstaða málsins er í nafni þess sem í raun vann að málinu. Sama má segja um aðra möguleika sem dómstjóra eru opnaðir til að fela aðstoðarmanni einstök dómstörf; þeir eru til þess fallnir að létta verulega vinnuálagi af héraðsdómurum, sem þar með gefst aukinn tími til að sinna því hlutverki að leggja dóm á munnlega flutt mál, hvort sem þau eru einkamál eða opinber mál.

Þá er lagt til í frumvarpinu að dómurum, og þá eftir atvikum aðstoðarmönnum, verði heimilað að fallast með áritun á kröfu um staðfestingu lögveðréttar í útivistarmáli. Samkvæmt núgildandi reglum laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verður að semja dóm í þeim málum þar sem fallist er á slíka kröfu en form þessara dóma hefur verið staðlað. Yrði af þessari breytingu töluverður vinnusparnaður fyrir héraðsdómstólana. Þar sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fela megi aðstoðarmönnum dómara ákveðin dómstörf er lagt til að starfsöryggi þeirra verði tryggt og að kjör þeirra verði ákveðin af kjaranefnd.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir nýmæli um birtingu dóma Hæstaréttar, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Heimilt verði að birta dóma á netinu sólarhring eftir uppkvaðningu hans en ekki samdægurs eins og verið hefur. Er frestinum ætlað að tryggja að málsaðilar fái hæfilegt ráðrúm til að kynna sér efni dómsins áður en hann verður gerður opinber á netinu. Þó að æskilegt sé að almenningur og fræðimenn hafi tök á að nálgast dóma Hæstaréttar, sem vegna fordæmisgildis geta augljóslega haft þýðingu fyrir aðra en málsaðila, þykir sem engum veigamiklum hagsmunum sé fórnað þó að almennri birtingu, aðgengilegri í sérhverri nettengdri tölvu, sé frestað um sólarhring. Það er hins vegar tillitssemi við aðila málsins, sem auðvitað dómurinn varðar mestu, að fá svolítinn tíma til þess að kynna sér efni hans eftir atvikum í samráði við lögmann sinn. Sérregla gildi um úrskurði sem kveðnir eru upp í þágu rannsóknar lögreglu, en þeir hafa iðulega að geyma upplýsingar um málavexti sem ekki þykir rétt að verði gerðar opinberar strax að úrskurði gengnum. Hafa verður í huga að upplýsingarnar lúta iðulega að málum sem enn eru til rannsóknar.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir banni við myndatökum og öðrum upptökum í dómhúsum, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Undanskildar eru þær upptökur sem fara fram á vegum dómstólsins sjálfs og eru þar hafðar í huga þær upptökur sem eðlilegar eru við rekstur dómstólsins, svo sem hljóðritun á framburði vitna og hefðbundin notkun öryggismyndavéla. Þá er rétt að undirstrika að gert er ráð fyrir því að dómstjóri geti heimilað myndatökur og aðrar upptökur í einstök skipti enda sé þess gætt að myndatökum og upptökum verði ekki beint að aðilum dómsmáls án þeirra samþykkis. Eru þetta að nokkru leyti sambærilegar reglur og í dönskum og norskum réttarfarslögum en hér er þó gengið skemmra en Danir og Norðmenn hafa ákveðið að gera því að þar eru einnig bannaðar myndatökur af sakborningum til eða frá þinghaldi. Nánar er fjallað um þetta í athugasemdum með 6. gr. frumvarpsins.

Í fjórða lagi hefur frumvarpið að geyma ákvæði er auka sjálfstæði dómara gagnvart dómstjóra, sbr. 4. gr. frumvarpsins, og koma í veg fyrir að dómari verði gegn vilja sínum ávallt settur í sama málaflokkinn, t.d. sakamál.

Í frumvarpinu er loks lagt til að hlutverk dómstólaráðs til þess að koma fram í þágu héraðsdómstólanna sameiginlega gagnvart almenningi verði aukið og heimilt verði að ráða sérstakan fulltrúa sem sinni samskiptum við fjölmiðla og aðra sem leita eftir sértækum upplýsingum sem varða málefni dómstólanna.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.