135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:08]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni að það er ekki gott að neinn tali niður til annars aðila og ef ég hef gert það bið ég afsökunar á því. Ég taldi mig ekki hafa gert það og það er ekkert sem bætir umræðuna eða bætir í ef menn gera það með þeim hætti og það var ekki ætlun mín.

Varðandi eftirlitsþáttinn þá er landlæknir faglegur eftirlitsaðili og hann er óháður aðili og sömuleiðis Ríkisendurskoðun sem hefur eftirlit með öllum þessum þáttum og hægt er að beina athugasemdum til eins og við þekkjum. Hins vegar liggur alveg fyrir að sá aðili, og sú umræða hefur verið tekin, eins og ráðuneytið er núna — það eru í rauninni þrír aðilar með þetta, þ.e. kaupendahlutverkið, það er samninganefnd heilbrigðisráðherra, það er hluti af heilbrigðisráðuneytinu og þar með sjúkratryggingar — sem borgar fyrir þjónustuna verður að hafa einhvers konar eftirlitsþátt. Það eru allir sammála um það. Hann verður að fylgjast með því að það sem greitt er fyrir og samið hefur verið um gangi eftir.

Ég er ekki viss um að það sé gott, virðulegi forseti, að taka hér upp einstök mál. Ýmis mál hafa komið upp í heilbrigðisþjónustunni sem eru miður og það er vont þegar menn takast á um það, ég held að það upplýsi ekki umræðuna að taka upp einstök mál í tengslum við það. Þeir sem tala um heilbrigðisþjónustuna á Íslandi og eru ánægðir með hana tala líka um að einkareksturinn í heilbrigðisþjónustunni sé góður og hann er u.þ.b. 30% af þjónustunni. Þannig er það (Gripið fram í.) og menn geta ekki komist hjá því. Ef menn vilja þurrka út einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni þá er það orðið stórt og viðamikið verkefni og ég er sannfærður um að það mundi gera allt annað en að bæta þjónustuna.