143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

ríkisfjármál.

[13:50]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það mun njóta algjörs forgangs í ríkisfjármálum á næstu árum að standa við þau fyrirheit sem þessi ríkisstjórn hefur gefið.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður gerir hér að sérstöku umtalsefni, lækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna, húsnæðislán, þá er það mjög jákvæð leið til að rétta hlut mjög stórs hluta landsmanna sem legið hefur má segja óbættur hjá garði í fimm ár, alveg frá efnahagshruninu, fólks sem hefur verið látið taka á sig gríðarlega auknar byrðar, það hefur orðið fyrir mjög miklu tjóni sem það hefur ekki á nokkurn hátt fengið bætt fyrr en nú. Það mun þá þýða að þetta fólk getur aftur orðið virkir þátttakendur í efnahagslífinu, virkir þátttakendur í samfélaginu, það getur tekið þátt í að skapa þau auknu verðmæti sem eru forsenda þess að hægt verði að standa undir hinum ýmsu útgjaldaliðum sem verða viðvarandi og munu í mörgum tilvikum fara hækkandi á næstu árum.

Eina leiðin úr þeim vanda sem ríkissjóður er í nú er að auka verðmætasköpun í landinu. Við þurfum að sjálfsögðu aðhald áfram, það er óhjákvæmilegt, en vandinn verður ekki leystur eingöngu með niðurskurði og aðhald, vandinn verður ekki leystur nema efnahagslífið á Íslandi taki aftur við sér, framleiðslan aukist og fólk, almenningur í landinu, geti á ný orðið virkir þátttakendur í heilbrigðu efnahagskerfi.