145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[12:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þessi ríkisstjórn er rúin öllu trausti. Menn verða bara að fara að horfast í augu við það. Þegar hv. þm. Jón Gunnarsson kemur hérna upp verður maður enn þá sterkari í trúnni á að menn ætli að svíkja þau loforð sem þeir gáfu þjóðinni, nota bene, þjóðinni, við erum ekki að tala um stjórnarandstöðuna, að kjósa í haust. Menn ætla að þröngva áfram öllum þeim málum sem þeir hafa ætlað sér að koma í gegn fyrir kosningar í apríl 2017, nú á að þjappa þessu saman í eitt gott skot og kýla þetta í gegn á þessum tíma. En hlutirnir gerast ekki þannig. Við verðum að horfast í augu við að það er ekki hægt að búa við svona ótrúverðugleika lengur. Það er ekki hægt að draga okkur í stjórnarandstöðunni fram og til baka í trausti þess að það sé verið að drepa málum á dreif (Forseti hringir.) og beina sjónum að einhverju öðru en vandamálinu sjálfu, sem er ríkisstjórn rúin öllu trausti.