139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála.

[10:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt að þessi nefnd breytir ekki neinu í þeim úrskurði sem kærunefnd kvað upp, það er alveg ljóst. Ég held að það sé ljóst að þetta er mjög sérstakt mál sem er tilefni til að stjórnsýslan læri af og að leitað sé skýringa á þeim mismunandi forsendum sem kærunefnd byggði á og síðan þessi mannauðsráðgjafi og það fólk sem var honum til aðstoðar sem var gjörólíkt mat — og ég er mjög hugsi yfir því hvaða forsendur eru lagðar til grundvallar.

Ef eitthvert vit á að vera í hlutunum þá verða að vera lagðar sömu forsendur til grundvallar hjá þeim sem ráða í störf í stjórnsýslunni og hjá úrskurðaraðilum eins og kærunefnd. Nefndin á að fara yfir þetta, það er þriggja manna nefnd sem fer yfir þetta. Ég vona að hún geti unnið fljótt og vel og skilað mér niðurstöðu á kannski viku til hálfum mánuði. Hún á að koma með ábendingar um það sem hægt er að læra af þessu (Forseti hringir.) og það sem betur má fara. Það er auðvitað ekki hægt að útiloka lagabreytingar í því skyni til að samræma það mat (Forseti hringir.) sem viðhaft er í stjórnsýslunni og hjá úrskurðarnefndum af þessu tagi.