144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég tel að síðasta ræða hafi verið besta ræðan sem hefur verið flutt við þessa umræðu og það hafi komið alveg skýrt fram að hv. þm. Jón Þór Ólafsson hlustar vel. Ég er alveg sammála honum um meginniðurstöðuna. Hún er sú hjá hv. þingmanni að það sé klikkað, eins og hann orðaði það, að ætla sér núna að söðla nýjan hest og ríða fljótið á honum þegar ljóst er að við höfum aðra klára sem hefur gengið ákaflega vel við að tosa þessu æki áfram. En svo rifja ég upp fyrir hv. þingmanni að við erum ekki einir með þá skoðun. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson hélt merka ræðu og bókstaflega tætti þetta frumvarp í sig, ýmislegt sem því tengdist. Svo rifjaði ég upp að sá ágæti flokkur, sem mér þykir alltaf í leyndum hjarta míns svolítið vænt um, Framsóknarflokkurinn, samþykkti á nýafstöðnu flokksþingi ályktun þar sem hann lagðist gegn niðurlagningu Bankasýslunnar. Erum við ekki að tala um það hér að við þurfum tíma þingsins til að ljúka (Forseti hringir.) mikilvægum málum? Hvers vegna að vera í þessu þegar það liggur fyrir að annar stjórnarflokkurinn er á móti því?