151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[13:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að fólkið og fyrirtækin í landinu greiði sína skatta til samfélagsins. Ég held að við séum öll sammála um það. Staðan í dag er sú að fjármagnið er alþjóðlegt og því skiptir öllu máli að regluverkið sé það líka og að alþjóðasamstarf á sviði skatteftirlits sé öflugt og samstillt. Markmiðið er að það ríki meira gagnsæi í þessu og að fólk og fyrirtæki geti einfaldlega ekki lágmarkað skattgreiðslur sínar til samfélagsins eftir krókaleiðum, oftar en ekki í krafti auðsins. Það veikir nefnilega bæði löggjafann og lýðræðið þegar auðmagnið fær að ráða því beint eða óbeint hvernig skattalöggjöf viðkomandi ríkis er háttað.

En sem betur fer hefur verið jákvæð þróun á þessu sviði síðastliðin ár, bæði hérlendis og alþjóðlega. Ég vil sérstaklega nefna mikilvægi laga um skráningu raunverulegra eigenda, sem þingið samþykkti fyrir tveimur árum, og svo breytingarnar á skattalöggjöf, sem hafa átt sér stað, eins og hér hefur verið rakið, m.a. vegna CFC-félaga. BEPS-samstarfið á alþjóðavettvangi hefur einnig skipt miklu máli. Hugmyndir sem hafa verið viðraðar meðal þjóðarleiðtoga um alþjóðlegt skattagólf á stærstu arðbærustu fyrirtækin og skattlagningu stafræna hagkerfisins eru jafnframt mjög athygliverðar. Það gefur tilefni til bjartsýni að sú umræða sé komin á skrið á alþjóðlegum vettvangi enda er þetta viðfangsefni sem þarf að fást við í gegnum alþjóðlegt samstarf. En það skiptir öllu máli að orðum fylgi gjörðir og að gripið verði til skilvirkra aðgerða.

Í þessari umræðu finnst mér líka tilefni til að nefna möguleikana á alþjóðlegum auðlegðarskatti sem myndi leggjast á auð þeirra allra efnuðustu í heiminum og gæti bæði aukið jöfnuð innan ríkja sem og milli þeirra. En svo ættu auðvitað allir auðmenn heimsins að sjá sóma sinn í að skila sínu og gott betur til samfélagsins án þess að það þurfi endilega að kalla eftir því, enda vel aflögufærir.