151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:38]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Já, ég vil ekkert gera lítið úr því að ráðherrann á líka heiður skilið fyrir framgöngu sína í þessu máli, og allir þeir sem voru í framlínunni, ekki síst starfsfólk Landspítalans og heilbrigðisstofnana í kringum landið, hjúkrunarheimilanna sem einnig þurftu að díla við þær erfiðu aðstæður sem sköpuðust. Ég hef kannski spurt ráðherra að þessu áður en ég spyr þá aftur: Hvernig munum við nýta þessa reynslu? Hvernig mun heilbrigðiskerfið geta nýtt sér þessa reynslu, álagið á starfsfólkið og hvernig það kemur út úr þessu, sem á kannski líka eftir að koma betur í ljós, og hvernig undirbúum við okkur sem best til að geta verið tilbúin, eins og hægt er, ef við lendum í slíku áfalli aftur eins og við erum að sigla út úr núna?