Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nú er það svo, eins og hv. þingmaður benti á, að hér erum við fyrst og fremst að horfa til framtíðar í þjónustuhlutanum. Vissulega er atvinnuþátttaka mikilvægur hluti af lífi fólks og í því að viðhalda virkni, sérstaklega þegar árin færast yfir. Ég veit að í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu er mikil meðvitund um þetta enda höfum við heyrt það, bæði hér í þingsal og í umræðunni almennt, að uppi eru ólík sjónarmið og ólíkar hugmyndir um atvinnuþátttöku eldra fólks. Ég tel mjög brýnt að við höldum þeirri umræðu áfram og reynum að finna einhverja leið sem hentar öllum. Hún má ekki vera íþyngjandi og ekki má leggja of miklar kröfur á einstaklinga, en vissulega er mjög bagalegt að fólk sem er í góðri virkni og óskar þess að fá að starfa lengur — það er mikilvægt að það geti gerst. Þessi aðgerðaáætlun snýr meira að þessari þjónustu og eins og kom fram í máli mínu, að við séum að horfa til búsetu fólks og að það geti dvalið sem lengst á sínu eigin heimili, sem langflestir kjósa, og að við styðjum frekar við einstaklinga sem það gera. Annað sem er gríðarlega mikilvægt er að umskiptin á milli þjónustustiga séu skýr og yfirfærslan einföld fyrir notendur.