Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir andsvarið. Mér finnst nú svolítið djúpt í árinni tekið að segja að það sé verið að varpa einhverju fyrir róða. Ég held að hér hafi verið unnið í mjög góðu samráði í lengri tíma að góðri aðgerðaáætlun og tel að það sé mikilvægt skref að ráða inn þessa tvo einstaklinga sem munu aðstoða fólk. Auðvitað er framtíðarsýnin sú, eins og í öllu öðru í okkar samfélagi, að allt færist yfir á netið. Þess vegna þurfum við að hjálpa til við aðlögun að þeim umskiptum og þessir einstaklingar sem ráðnir eru til fjögurra ára munu vera til staðar. Þeir munu svara í síma, þeir verða í netspjalli og þeir munu jafnvel hitta fólk til að aðstoða það. Ég þekki ekki stöðu þess sem hv. þingmaður er að vísa til með þennan hagsmunafulltrúa, en það sem ég veit er að samráðið var mikið við hagaðila. Þetta er niðurstaðan, ég er sátt við hana og tel að við séum að gera ekki bara lítið, heldur að ganga mjög langt. Við erum að taka stór skref og þessi aðgerðaáætlun snýr auðvitað líka að því að taka saman upplýsingar og meta stöðuna. Þarfirnar eru gríðarlega ólíkar, eins og hv. þingmaður benti á þá erum við að tala um ofboðslega stóran hóp fólks sem er í mjög ólíkum aðstæðum. Við þurfum því líka að fá þessa yfirsýn til að geta veitt betri þjónustu og það er hluti af þessari aðgerðaáætlun.