150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:48]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á margt en undir lokin kom hann inn á það eða kvartaði undan því að stjórnin eða stjórnarflokkarnir væru að koma með ófullbúin mál inn í þingið og síðan yrði það að taka til í þeim. En er það ekki einmitt hlutverk okkar? Er ekki þingmaðurinn sammála mér að í því sýni þingið að vissu leyti styrk sinn, að taka við málum frá ríkisstjórninni? Í því ástandi sem nú hefur verið er einmitt kannski enn þá minna skrýtið að síðan þurfi að bregðast við á leiðinni að niðurstöðu. Mig langar að vita hvort þingmaðurinn er ekki sammála mér í því að þinginu hafi einmitt oft og tíðum tekist ágætlega til í þessu.

Ég veit að hv. þingmaður er mér ekki sammála í því að þingið hefði kannski mátt að hans mati samþykkja fleiri breytingartillögur stjórnarandstöðunnar, það kann vel að vera sjónarmið þingmannsins. En á hitt er að benda að margar tillögur sem hafa orðið til í þingnefndunum hafa komið út úr samtali á milli stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðuþingmanna og einmitt bætt málin og mig langar að heyra þingmanninn reifa það hvort það er ekki einmitt hlutverk okkar hér að að vinna þessa vinnu.