151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[13:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða um eignir Íslendinga í aflandsfélögum og fyrir þá umræðu ber að þakka. Þær upplýsingar sem birtust í Panama-skjölunum vörpuðu ljósi á tvískiptingu samfélagsins og þá spillingu sem víða leynist. Öllum ber skylda að taka þátt í samfélaginu og þeir sem svífast einskis við að komast undan þeirri skyldu sinni eru að svíkja samborgara sína. Því miður er það svo að ítrekað kemur í ljós að þeir sem hafa það allra best leggja sig mest fram um að komast undan þeirri skyldu. Það er ekki á allra færi að stofna skúffufélag í skattaskjóli, venjulegt fólk á ekki félag á Kýpur eða Tortólu, það segir sig sjálft. Það er erfitt að sjá hvers vegna fólk þarf yfir höfuð að eiga slík félög. Hvaða tilgangur gæti hugsanlega legið að baki annar en sá að komast undan skattgreiðslum? Því er eðlilegt að stjórnvöld rannsaki gaumgæfilega þegar í ljós kemur að fjársterkir innlendir aðilar eiga félag á aflandssvæðum, og rannsaki hvort tilgangurinn með slíkum félögum sé að auðvelda fólki og fyrirtækjum að komast undan skattgreiðslum.

Við hefðum strax átt að stórefla skattrannsóknir þegar Panama-skjölin litu dagsins ljós. Þá hefðum við einnig áttu að stórefla skattrannsóknir í kjölfar umfjöllunar Kveiks um fiskveiðar í Namibíu. Þess í stað höfum við dregið úr eftirliti skattrannsóknarstjóra með því að fella niður embættið og færa starfsemina inn í Skattinn. Þá höfum við ekki svarað ákalli héraðssaksóknara um aukið fjármagn til að rannsaka meint efnahagsbrot. Nú er hættan sú að mál falli niður eða fyrnist og hinir seku komist undan án þess að skila sínu til samfélagsins. Ég mun koma nánar að því í næstu ræðu minni.