Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er sammála hv. þingmanni með það að það er svolítið ólíku saman að jafna, hagsmunafulltrúa og svo þessari tillögu. Ég greiddi atkvæði með þeirri tillögu að setja á laggirnar hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk og ég styð það heils hugar. Ég hefði viljað sjá það sem viðbót við þessa ágætu þingsályktunartillögu og ég hvet hv. þingmann til að halda þessu vel á lofti. Ég veit að hv. þingmaður kom með þessa tillögu hér og hún fékk brautargengi og ég vona svo sannarlega að við sjáum það að sett verði á laggirnar embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Ég tek heils hugar undir það. Varðandi það hvort eldri borgarar muni nýta sér samskipti á netinu með þeim hætti sem lagt er upp með þá tel ég að mjög margir muni gera það. Það fer náttúrlega ört fjölgandi í þessum hópi og margir sem eru að komast í þennan hóp eru mjög tölvuvanir hvað það varðar. En við eigum eftir að sjá hvernig þetta þróast og hvernig þetta kemur út og ef það verða einhverjir hnökrar á því þá þarf náttúrlega að bregðast við. Ég held að það sé engin spurning.

Það sem ég var kannski að gagnrýna var að mér fannst ákveðinn neikvæður tónn kannski vegna þess að það er ekki að sjá að sú tillaga sem var samþykkt um hagsmunafulltrúann sé að líta dagsins ljós eins og er, sem brýst fram í því að þingmenn Flokks fólksins séu ekki nógu jákvæðir gagnvart þessari tillögu. En ég veit að hv. þingmaður hefur stórt hjarta fyrir eldra fólki og ég veit að henni líkar vel við þessa tillögu, margt sem í henni er. (Forseti hringir.) En við eigum þetta sameiginlega baráttumál, að sjá til þess að hagsmunafulltrúi eldra fólks muni líta dagsins ljós innan skamms.